Valdaójafnvægi innan menntaskóla

By 19. February, 2016 Fréttir, Pistlar

Sem nemandi í menntaskóla er ég mjög ánægð með þá vitundarvakningu sem hefur átt sér stað undanfarið í jafnréttisbaráttunni. Nemendur og nemendafélög innan framhaldsskóla hafa tekið virkan þátt í því að stuðla að jafnrétti og almennu jafnvægi milli kynja. Því miður hafa þó ekki allir framhaldsskólar landsins verið jafn virkir í þessari mikilvægu hreyfingu.

Kyngervi verður stór hluti sjálfsmyndar unglingsins en hver skóli hefur sína eigin kynjamenningu. Kynjamenning innan skólanna getur ráðist af ýmsum aðstæðum sem myndast innan skólans eða bæjarfélagi skólans. Skólar eins og Kvennaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn við Hamrahlíð eru með meðvitaða jafnréttismenningu sem er ríkjandi innan nemendafélaganna. Þetta má sjá á kynjahlutfalli innan nemendafélagsins og því sem nemendafélögin setja opinberlega frá sér á netið, eins og myndbönd, auglýsingar og aðrar yfirlýsingar. Hinsvegar eru því miður ennþá margir skólar, eins og Flensborgarskólinn í Hafnarfirði og fleiri, sem eru ekki komnir eins langt þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Nemendafélögum þeirra er oft skipt eftir kynhlutverkum og láta frá sér myndbönd og auglýsingar á netið sem eru niðrandi í garð kvenna.

Nemendafélag Flensborgarskólans í Hafnarfirði hefur í gegnum tíðina verið mikið gagnrýnt fyrir karllæga menningu sína.  Ekki er til tölfræði fyrir þetta skólaár en árið 2014-2015 voru níu af sextán nefndum skólans alveg kynjaskiptar.  Í Flensborg voru ráð eins og Tónlistarráð, Vefráð, Slúðurnefnd, Íþróttaráð og Videoráð fullskipuð strákum. Þau ráð innan sama skóla, sama vetur sem voru einungis skipaðar stelpum voru Skreytingarnefnd, Auglýsingaráð, Bóksölunefnd og Hagsmunaráð. Þær nefndir sem strákarnir hafa umráð yfir eru gjarnan frekar í sviðsljósinu og einnig oft á tíðum miðpunkturinn í kringum ýmsa viðburði. Strákaráðin  eru bæði valdameiri en hin ráðin og einnig sjálfstæð ráð sem sjá ekki um að veita öðrum ráðum einhverskonar þjónustu. Stelpuráðin eru hinsvegar í stuðningshlutverki innan nemendafélagsins.  Hluverk þessara ráða er að sjá um að auglýsa, skreyta og selja miða fyrir viðburði sem haldnir eru af hinum ráðunum. Hægt er að velta fyrir sér hvers vegna þetta getur skipt máli. Að mínu mati skiptir þetta miklu máli því að framhaldsskólaárin eru mjög mótandi tími í lífi einstaklinga og sá tími sem ungmenni prófa sig áfram í hinum ýmsu hlutverkum. Stelpurnar læra þá að vera í stuðningshlutverki við strákana á menntaskólaárunum í Flensborg.

Marvin videoráð Flensborgarskólans er fullskipað strákum eins og í flestum öðrum skólum. Það sem videoráð hvers framhaldsskóla fyrir sig leyfa sér að setja á netið endurspeglar þá menningu sem er ríkjandi og samþykkt innan skólans.

Það var í Janúar 2014 á annari önninni minni í menntaskóla sem ég fann fyrst fyrir minnimáttarkennd yfir kynferði mínu.  Þá hafði ég verið eina önn í MH en skipt yfir í Flensborg á áramótum. Ég var á viðskipta og hagfræði-braut sem er mjög karllæg braut. Það olli því kannski að ég fann frekar fyrir þessari kvenfyrirlitningu sem var beinlínis áþreyfanleg.   Á miðri vorönninni 2014 fór stofnandi jafnréttisráðs Flensborgarskólans í allar stofur að kynna ráðið sem hafði ekki verið starfandi það skólaár. Ég ákvað að bjóða mig fram í Jafnréttisráð fyrir komandi skólaár. Það var svo í september sem ég tók við þessu embætti og í sama mánuði var undibúningur yfirstandandi á nýnemaballi. Auglýstir voru skemmtikraftar sem að foreldrar nemenda voru ekki sáttir við og svo fór að foreldraráð Flensborgarskólans sendi inn athugasemd vegna þeirra. Skemmtikraftarnir voru Gillz og Óli Geir.  Á sama tíma gekk sú saga um skólann að ég hefði komið í veg fyrir að þessir skemmtikraftar fengju að skemmta á ballinu. Skólinn sagðist vera  meðvitaður um þennan orðróm og sagðist ætla að gera allt til þess að leiðrétta þennan misskilning innan skólans. Í kjölfarið varð ég fyrir margskonar aðkasti. Útskúfun, hunsun og illu umtali sem ég heyrði gjarnan á göngunum. Ég var stoppuð á göngunum af fólki sem ég þekkti ekki til en sem vildi tjá sig um málið. Á leið minni um gangana var ég stoppuð og spurð spurninga um hvort ég fílaði Hildi Lilliendahl, Reykjavíkurdætur og hvað mér fyndist um Gillz.

Aðrir meðlimir jafnréttisráðs höfðu gengið í ráðið í sömu viku og mitt fyrsta hlutverk sem formaður jafréttisráðs var því að róa aðra meðlimi sem leist ekki á blikuna og sumir vildu hætta. Svo fór að meðlimum jafnréttisráðs fækkaði um einn en ein stúlka treysti sér ekki til þess að vera skotmark þeirra drengja sem fóru með vald innan skólans. Eftir nokkrar vikur af þessu þá ákvað ég að ég nennti ekki að taka þennan slag þar sem að menningin í skólanum var ekki til þess fallin að vera opin fyrir nýjum hugmyndum og því sótti ég um skólaskipti aftur. Ég fór yfir í MH um áramót og þar gekk vel. Ég hélt að þessu máli í Flensborg væri lokið en svo var ekki. Í febrúar var árshátíð Flensborgarskólans og myndbandaráð ákvað að taka mig fyrir í árshátíðarmyndbandi skólans. Þeim þótti greinilega ekki nóg að hrekja mig úr skólanum heldur gera þeir mig að fordæmi fyrir aðra sem hugsanlega gætu haft áhuga á að taka þátt í að vinna að jafnrétti innan skólans og náðu því jafnvel að  þagga niður í næsta væntanlega formanni jafnréttisráðs.

Atriðið var tæpar 4 mínútur að lengd og í atriðinu var stúlka, leikin af strák, femínisti með bleikt hár, hún bar mitt nafn og nafnið kom fram nokkrum sinnum í atriðinu. Þessi Þórdís var að tala um hversu mikið hún hataði karlmenn og hún ætlaði að drepa drengina í Marvin videoráði skólans. Skólinn samþykkti þetta myndband vitandi allar hliðar málsins og það að ég hafi skipt um skóla í kjölfarið. Skólinn gaf þá skýringu að þar sem að ég væri ekki nemandi í skólanum lengur þá mættu þeir í videoráðinu Marvin alveg taka mig fyrir á þennan hátt.

Vinnubrögðum innan Flensborgarskólans og margra annara skóla þarf að breyta og skólarnir þurfa að geta leiðbeint nemendum sínum. Félagslífsfulltrúi á að vera leiðbeinandi þeirra sem fara með völd innan félagslífs skólans og stuðla að jafnrétti en ég tel að það hafi ekki tekist. Mér finnst mikilvægt að hafa í huga að um helmingur nemenda eru ennþá börn og búa hjá foreldrum sínum. Ég geri mér grein fyrir að ég var ekki ein um að vera tekin fyrir í myndbandinu hjá videoráðinu Marvin. Það er því ljóst í mínum huga að Flensborgarskólann skorti skilning á því valdaójafnvægi milli þeirra nemenda sem fara með völd í skólanum og þeirra sem ekki hafa völdin í hendi sér.

Það er mjög skrítin tilfinning sem fylgir því að upplifa svona heift í eigin garð frá strákahóp eins og þessum.  Áður en ég sá myndbandið sjálft upplifði ég mig mjög valdamikla, þeir höfðu eftir allt saman eytt sínum tíma og orku í að niðurlægja mig en ég var komin á annan stað og annan skóla með öðru fólki. Myndbandið var mun grófara en ég hafði búist við. Þrátt fyrir að ég væri komin í MH á þessum tíma þá hafði myndbandið samt áhrif á mig. En þar sem að ég bjó og bý ennþá í Hafnarfirði hafði myndbandið einangrandi áhrif á mig félagslega. Ég finn ennþá fyrir afleiðingum þess að hafa verið útskúfuð félagslega þar sem að ég hitti ennþá þessa einstaklinga og aðra sem voru í skólanum á þessum tíma. Þeir eru í strætó, ég afgreiði þá í sjoppunni þar sem ég vinn, þeir eru á kaffihúsinu, þeir eru í bænum mínum. Það er einfaldlega þannig að öllu gríni fylgir einhver alvara og þegar grínið beinist að einum einstakling og er orðið eitthvað sem 800 manns eiga að hlæja saman að þá er það einfaldlega ekkert fyndið lengur. Myndbandið sýnir rótgróna kvenfyrirlitningu í menningu skólans, einnig sérstaka hræðslu og heift í garð þeirra sem láta til sín taka.

Mér hefur þótt andrúmsloftið í MH mun betra. Innan MH ríkir nokkurskonar jafnréttismenning og nemendur skólans eru stöðugt að tileinka sér nýjar hugmyndir og stefnur í jafnréttismálum. Feministafélagið Embla er mjög virkt og veitir skólanum aðhald. Einnig eru nemendur skólans mjög fjölbreyttir og opnir fyrir skoðunum annarra.

– Þórdís Dröfn Andrésdóttir

Greinin birtist fyrst í Framhaldsskólablaðinu.