0

Uppbygging herstöðvar á Keflavíkurflugvelli

By 24. September, 2019 Uncategorized

Ályktunin tengist sextánda heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna.

Landsfundur Ungra vinstri grænna haldinn í Mosfellsdal helgina 14.-15. september 2019 krefst þess að móðurhreyfingin beiti sér gegn frekari uppbyggingu og umsvifum bandaríska hersins og NATO á Keflavíkurflugvelli. Verið er að slá ryki í augum almennings með því að kalla uppbygginguna annað en endurkomu Bandaríkjahers. Aukinn áhugi Bandaríkjamanna á norðurslóðum og endurskoðun Bandaríkjanna á norðurslóðastefnu sinni gefur það vel til kynna. Einnig krefst hreyfingin þess að forsætisráðherra Íslands og formaður þjóðaröryggisráðs tali gegn auknum hernaðarumsvifum á norðurslóðum á alþjóðavettvangi. Norðurslóðir eiga að vera herlaust svæði.

UVG hvetur einnig aðra stjórnmálaflokka til þess að setja það í stefnuskrá sína að segja upp varnarsamningi Íslands við Bandaríkin og úrsögn Íslands úr hernaðarbandalaginu NATÓ.

 

Greinagerð með ályktun:

Umsvif bandaríska hersins á Íslandi er dæmi um þekkta aðferða þar sem sett er upp ,,færanleg herstöð” sem fellur utan hefðbundinnar skilgreiningar á herstöðvum. Þetta er gert til þess að brjóta ekki samning Bandaríkjanna og Rússlands um uppbyggingu herstöðva við landamæri Rússa. Mikilvægt er að kalla þessa uppbyggingu réttu nafni, varanlegt aðsetur Bandaríkjahers á Íslandi.

Vera Bandaríkjahers á Íslandi er ekki einungis friðarmál. Kolefnisfótspor hersins er gríðarlegt og samkvæmt varnarsamningi ber herinn enga ábyrgð á þeim náttúruspjöllum né mengun sem hann veldur sem er með öllu óásættanlegt. Það skýtur skökku við að banna plastpoka í búðum á meðan við bjóðum þennan mesta mengunarsóða heimsins velkominn í náttfatapartý.  Bandaríski herinn hefur ekki sett orkuskipti á dagskránna og kolefnisjafnar ekki herflug sín né loftárásir.