0

Það er skortur á aðgengi alls staðar!

By 24. September, 2019 Uncategorized

Ályktunin tengist tíunda heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna.

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Mosfellsdal 14.-15. september 2019, tekur afstöðu með baráttu fatlaðs fólks þegar kemur að aðgengi og inngildingu (e. inclusion). Það er löngu tímabært að stjórnvöld geri aðgerðaráætlanir, gefi sér meiri tíma sem og fjármuni í málefni fatlaðs fólks.

 

Greinagerð með ályktun :

Samningur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks sem var fullgildur á Íslandi árið 2016 snýr að mörgu leyti að aðgengi fatlaðs fólks. Með aðgengi er átt við að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi og tekið þátt í samfélaginu án einhvers konar hindrana. Aðgengi að byggingum og samgöngum, aðgengi að þjónustu, aðgengi að upplýsinga- og samskiptatækni, aðgengi að menntun, aðgengi að punktaletri  eða hljóðupplýsingum í almannarými, aðgengi að tómstundum og aðgengi að upplýsingum sem eru settar fram á einföldu máli þarf að bæta til muna, svo fátt sé nefnt.

Hvar er aðgengið? Fatlað fólk á Íslandi býr við stöðugt öráreiti, mismunun og fordóma. Aðgengisleysi ýtir undir fordóma og mismunun og er öráreiti fyrir þau sem mæta því. Það er ekki flókin aðgerð að gera samfélagið okkar smátt og smátt að umhverfi sem er aðgengilegt fyrir öll. Fatlað fólk á ekki að þurfa að aðlaga sig að samfélaginu. Stjórnvöld eiga  að sjá til þess að samfélagið sé aðgengilegt öllum. Hvort sem það er að þrýsta á íþróttaliðið í nærumhverfinu að innleiða inngildingu í íþróttastarfið og nota styrki frá bæjarfélaginu í það að ráða stuðningsíþróttaþjálfara eða bæta aðstöðu þeirra sem nota hjólastól eða önnur hjálpartæki þegar kemur að þungum hurðum og háum köntum, þá snýst þetta um mannréttindi.

Jafnrétti mun ekki nást, fyrr en allir jaðarhópar njóta réttinda í takt við meginþorra samfélagsins.