Synt á móti straumnum

By 20. June, 2016 Fréttir, Pistlar

Síðastliðinn sunnudag var kvMyndenréttindadagurinn haldinn hátíðlegur, blómsveigur var lagður að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Hólavallagarði. Sóley Tómasdóttir forseti borgarstjórnar flutti ávarp, þar líkti Sóley konum í stjórnmálum við fiska sem synda á móti straumnum.

Enn í dag, árið 2016 standa konur höllum fæti í samfélaginu, kynbundinn launamunur er staðreynd. Hið karllæga valdakerfi sem við búum enn þá við brýtur á sjálfsákvörðunarrétti kvenna og gerir sáralitlar tilraunir til þess að uppræta kynbundið ofbeldi.

Byltingar síðustu missera svo sem Free the Nipple, #sexdagsleikinn og Konur tala, sýna að fólk er búið að fá nóg af feðraveldinu. Þær hugrökku konur sem stóðu að baki þessum byltingum eiga svo sannarlega hrós skilið, jafnrétti kynjanna hefur þó ekki verið náð. Það er nauðsynlegt að stjórnvöld taki undir þessar byltingar og hjálpi þeim að útrýma feðraveldinu, sá ósýnilegi þröskuldur sem virðist vera settur fyrir konur í samfélaginu er hindrun sem stjórnvöld þurfa að vinna bug á.

Sóley benti á mikilvægan punkt með myndlíkingu sinni, það að konur þurfa leggja meira á sig til þess að á þær sé hlustað, þær þurfa að leggja meira á sig til þess að hafa áhrif og ef að þær gera það ekki er varla tekið mark á þeim. Konur hafa látið í sér heyra, þær hafa barist fyrir jafnara samfélagi, nú er komið að stjórnvöldum að ganga til liðs við baráttuna fyrir breyttu og jafnara samfélagi.

Til hamingju með kvenréttindadaginn! Höldum byltingunum áfram!

– Ragnar Auðun Árnason, Talsmaður UVG