Umhverfismál

Ung vinstri græn leggja höfuðáherslu á sjálfbæra þróun. Sjálfbær þróun felur í sér að þörfum nútímans til nýtingu auðlinda sé mætt án þess að brotið sé gegn rétti síðari kynslóða til að mæta sínum þörfum. Markmið slíkrar þróunar er að aukning á efnahagslegum verðmætum bitni ekki á náttúrunni og að notkun náttúruauðlinda stuðli að bættum lífsgæðum og mannréttindum allra. Sjálfbær þróun byggir á þremur meginstoðum; vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri. Stoðirnar eru órjúfanlegar og eiga við í hnattrænu samhengi.

Ung vinstri græn telja nauðsynlegt að atvinnustarfsemi í landinu sé byggð upp í sátt við náttúruna. Það er best gert með því að styðja við lítil og meðalstór græn fyrirtæki. Frekari stóriðja en nú hefur verið komið á fót er óforsvaranleg, sérstaklega þegar litið er til þeirra umhverfisspjalla sem hún hefur þegar valdið.

Umhverfismálin eiga ekki einungis við landsbyggðina. Ung vinstri græn telja mikilvægt að grænar áherslur séu hafðar í öndvegi við uppbyggingu í þéttbýli, hvort tveggja í samgöngu- og skipulagsmálum. Frekari þétting byggðar á höfuðborgarsvæðinu verður að vera inn á við en ekki í frekari uppbyggingu úthverfa utan við núverandi byggðamörk.

Þá er rík áhersla lögð á að styrkja umhverfisvænar samgönguúrlausnir líkt og strætisvagnakerfi og hjólreiðastíga en minnka áhersluna sem lögð er á einkabílinn.

Ung vinstri græn krefjast þess að náttúruauðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar en verði þær nýttar skuli þær gagnast öllum landsmönnum jafnt. Sjálfbær þróun gerir þá kröfu á okkar kynslóð að við finnum leiðir til sjálfbærni í orkumálum, en hættum að gera óafturkræfar skemmdir á umhverfinu í þágu skammtímagróða. Ung vinstri græn vilja að stjórnvöld hvetji sérstaklega til meðvitaðrar neyslu og umgengni við umhverfið, meðal annars með allsherjarátaki í sorpvinnslumálum og skipulagðri baráttu við losun gróðurhúsalofttegunda.

Ung vinstri græn leggja til eftirfarandi leiðir til að tryggja sjálfbæra þróun í umhverfismálum
Verndum náttúruna sem sameign
 • Að náttúruauðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar og séu nýttar skynsamlega í þágu allra, án þess að gengið sé á höfuðstólinn.
 • Að náttúruperlur séu almannaeign.
 • Að landvarsla verði efld til þess að mæta sívaxandi umgengni um landið.
 • Að aðstaða á ferðamannastöðum verði stórbætt til þess að tryggja betri og náttúrvænni umgengni.
 • Að lögð sé áhersla á skipulega vatnsvernd samhliða annarri umhverfisvernd.
Umhverfisvernd í atvinnulífinu
 • Að eftirlit með fyrirtækjum verði eflst til muna og komið verði á fót Umhverfiseftirliti með svipuðu sniði og Samkeppniseftirliti.
 • Að ríkisvaldið styðji með einum eða öðrum hætti fyrirtæki og sprotafyrirtæki sem hafa umhverfisvernd að leiðarljósi.
 • Að atvinnuvegir og fyrirtæki lagi sig að kröfum um vistvæn framleiðsluferli og sjálfbæra þróun.
 • Að íslenskir ráðamenn og fyrirtæki beiti sér fyrir umhverfisvernd í samræmi við þá hreinu ímynd af íslenskri náttúru sem þeir setja fram í þágu eigin hagsmuna.
 • Að frekari byggingu álvera og mengandi stóriðju verði tafarlaust hætt.
 • Að hvers kyns áform um olíuvinnslu á Drekasvæðinu verði stöðvuð tafarlaust.
 • Að litið verði til þróunar á rannsóknum, geymsluaðferðum og framleiðslu umhverfisvænnar raforku til að koma í stað mengandi jarðefnaeldsneyta.
 • Að aukin verði fjölbreytni og nýsköpun í atvinnulífinu á grænum forsendum, lagi á svæðum sem eru nær alfarið upp á stóriðju komin.
 • Að atvinnusköpun í ferðamannaiðnaðnum byggist upp með ábyrgum hætti sem víðast á landsbyggðinni og þess gætt að sú þróun komi ekki niður á umhverfinu líkt og hætt er við.
 • Að viðhald og uppbygging í ferðamannaiðnaði sé fjármögnuð með skatttekjum en ekki ólögmætum gjaldtökum sem skerða almannarétt.
Umhverfisvænar samgöngur
 • Að kostir þess að taka upp strandsiglingar verði skoðaðir út frá efnahagslegum og umhverfislegum ávinningi auk þess að öryggi á vegum landsins sé haft hugfast.
 • Að almenningssamgöngur verði byggðar upp í sem flestum þéttbýlum og á milli þéttbýla.
 • Að hjólreiðar verði gerðar að raunhæfum valkosti með stóruppbyggingu hjólreiðastíga í þéttbýli.
Sjálfbærni í orkumálum
 • Að fjárframlög til orkurannsókna verði stóraukin og sömuleiðis stuðningur við rannsóknir sem miða að því að draga úr notkun og þar með innflutningi jarðefnaeldsneytis.
 • Að áhersla á orkusparnað verði aukin.
 • Að stefnt skuli að því að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum og flutningum.
Meðvituð neysla og umgengni við umhverfið
 • Að stuðlað verði að meðvitaðri og hóflegri neyslu, vörur notaðar betur og endurvinnsla verði aukin.
 • Að aðgengi almennings að endurvinnslu og umhverfisvænum vörum og þjónustu verði bætt.
 • Að leiðir til skattlagningu mengunar verði kannaðar.
 • Að gerð verði áætlun um verulegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og séð til þess með lagasetningu að áætluninni sé fylgt eftir.
 • Að fylgst verði með og lagt vandað mat á afleiðingar loftslagsbreytinga á náttúru Íslands, meðal annars með þjóðarhag og þjóðaröryggi í huga.
 • Að dregið verði úr hávaðamengun.
 • Að skipulagsvinna á öllum sviðum einkennist af hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.
 • Að sorpflokkun verði tekin upp alls staðar, sorptunnur á almenningssvæðum útbúnar til flokkunar og stjórnvöld taki sér Svíþjóð til fyrirmyndar í endurvinnslumálum.
 • Að heimili sem flokki sorp fái afslátt af sorphirðugjaldi.
 • Að stjórnvöld leiti leiða til að fækka umbúðum og hætta alfarið notkun plastpoka.
 • Að komið verði á virkri beitarstjórnun í öllum landsfjórðungum.
Tökum ábyrgð á framtíðinni
 • Að Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem Alþingi hefur samþykkt verði virt og vinnu við hana haldið áfram.
 • Að við verðlagningu raforku verði tekið fullt tillit til allra kostnaðarþátta, þ.á.m. fórnarkostnaðar náttúru vegna virkjana og annarra orkumannvirkja.
 • Að rannsóknir á sjávarvistkerfum, nytjastofnum og áhrifum veiða og veiðiaðferða verði auknar.