Sósíalismi & félagslegt réttlæti

Grundvallarstefna Ungra vinstri grænna er að allir hafi jöfn samfélagsleg réttindi án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar, uppruna, búsetu eða annarra félagslegra þátta. Hreyfingin leggur áherslu á að öll þjónusta hins opinbera standi öllum til boða óháð þessum þáttum.

Ung vinstri græn vilja að skattkerfinu sé beitt í þágu jöfnuðar og félagslegs réttlætis. Tryggja þarf að mesta byrðin af skattkerfinu hvíli hjá þeim sem geta borið hana og að reynt sé til hins ítrasta að vernda þá verst settu. Ung vinstri græn leggja áherslu á samfélagslegt öryggi sem felst í uppbyggingu öflugs velferðarkerfis, að félagslegt réttlæti sé í leiðarljósi í allri stefnumótun og að öflugt heilbrigðiskerfi sé til staðar þar sem allir geta sótt sér læknisaðstoð án tillits til efnahags- og/eða samfélagsstöðu.

Ung vinstri græn líta á gjaldfrjálsa menntun sem jafnréttis- og mannréttindamál. Menntun er mannréttindi, ekki forréttindi, og leggjast því Ung vinstri græn gegn einkavæðingu og skólagjöldum í menntakerfinu. Gerð er krafa um jafnan rétt til náms, hvort sem um ræðir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, iðnskóla, háskóla, list- og tómstundanám eða endur- og símenntun. Bæta þarf kjör kennara á öllum skólastigum í samræmi við þau mikilvægu störf sem kennarar gegna og þá ábyrgð sem þeir bera á uppeldi og menntun barna.

Ung vinstri græn telja að ríkið þurfi að axla ábyrgð og efla uppbyggingu og endurbætur á samgöngum til að tryggja landsmönnum jafnt aðgengi að grunnþjónustu. Hreyfingin telur nauðsynlegt að haldið sé áfram þeirri stefnu að beita samgöngubótum til að skapa heildstæð byggða- og atvinnusvæði og að ráðist sé í sértækari aðgerðir til aðstoðar þeim svæðum sem standa verst. Auk þess eru góð fjarskipti grundvöllur þess að byggð þrífist um land allt. Grunnnet fjarskipta- og orkudreifingarkerfisins á að vera í þjóðareigu og sama verðskrá fyrir landið allt.

Ung vinstri græn telja brýnt að íslensk landsstjórn byggist á sósíalískum gildum og leggja til eftirfarandi leiðir til að ná því markmiði:
Byggða- og samgöngumál
 • Að einbreiðum brúm á þjóðvegi 1 verði útrýmt og lokið við að leggja bundið slitlag á þjóðveg númer 1.
 • Að sektir fyrir umferðalagabrot verði tekjutengdar.
 • Að leitast verði við að búa til heildstæð atvinnusvæði með samgönguúrbótum, til dæmis með jarðgangnagerð, þar sem umhverfisaðstæður leyfa.
 • Að björgunarþyrlur séu staðsettar á hverju landssvæði
 • Að strandsiglingar verði efldar með það að markmiði að tryggja örugga og hagkvæma flutninga.
 • Að haldið verði áfram með sértækar aðgerðir til hjálpar illa settum landssvæðum.
Málefni fatlaðra
 • Að ríkið axli ábyrgð svo að foreldrar fatlaðra og langveikra barna fái þá hjálp frá opinberum aðilum sem þeir þarfnast.
 • Að fyrirtæki, stofnanir, þjónustustaðir og fjölbýlishús tryggi undantekningalaust aðgengi fyrir fatlað fólk.
 • Að í námsskrá framhaldsskóla sé gert ráð fyrir því að heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir hafi kost á því að læra erlent táknmál til að auka tækifæri þeirra til jafns við aðra.
 • Að allir skólar hafi á sínum snærum táknmálstúlka svo að heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir hafi jafnt val þegar kemur að menntun.
Fátækt
 • Að neyðarskýlum fyrir heimilislausa verði fjölgað en jafnframt að lögð verði áhersla á að koma á fót nauðsynlegum langtíma úrræðum fyrir heimilislausa.
 • Að enginn lifi undir fátæktarmörkum.
 • Að fjárhagslegar aðgerðir stjórnvalda miði að því að tekjulægstu hóparnir í samfélaginu séu settir í forgang.
 • Að allir geti nýtt sér sjálfsagða og gjaldfrjálsa grunnþjónustu.
Skattar
 • Að þrepaskiptu skattkerfi verði viðhaldið og aukið.
 • Að sanngjörnum auðlegðarskatti verði komið á að nýju
 • Að sanngjörn renta sé tekin fyrir nýtingu auðlinda, bæði á sjó, í formi auðlindaskatts á sjávarútveg, og landi í formi raforkuverðs sem tekur mið af raunverulegum kostnaði við framleiðslu raforkunnar fyrir samfélag og náttúru.
 • Að leitað verði leiða til að afla tekna fyrir uppbyggingu og umsjón með náttúruperlum svo hægt verði að vernda þau fyrir ágangi ferðamanna.
 • Að virðisaukaskattsþrepum verði fjölgað og þau nýtist sem það jöfnunartæki sem þau sannarlega eiga að vera.
 • Bækur, mikilvægustu námsgögn, getnaðarvarnir og túrvörur beri ekki virðisaukaskatt.
 • Uppbygging og umsjón með ferðamannastöðum verði að hluta fjármögnuð með gistináttagjaldi.
Atvinnulíf í sátt við umhverfið
 • Að gert verði átak í rannsóknum á vistvænum orkugjöfum á borð við vindorku, sólarorku og virkjun sjávarfalla.
 • Að dregið verði markvisst úr orkunotkun skipaflotans á aflaeiningu og hvatt til varkárni í umgengni við auðlindina og allt lífríki sjávar.
 • Að fjölga störfum í tengslum við leiðsögn og fræðslu um umhverfi og náttúru, m.a. í þjóðgörðum og á öðrum friðlýstum svæðum.
 • Að komið verði á fót nýjum starfsgreinum á sviði umhverfisfræða.
 • Að lögð verði áhersla á að fullvinna afla, hætta brottkasti sjávarfangs og auka nýtingu alls lífræns úrgangs sem til fellur í sjávarútvegi jafnt á sjó og landi.
Sanngjarnar leikreglur í þágu alls samfélagsins
 • Að spornað verði gegn vaxandi fákeppni í smásöluverslun og að hún færist í hendur svo fárra og stórra aðila að þeir nái kverkataki á birgjum og framleiðendum, þ.m.t. afurðasölu bænda.
 • Að skattleggja sérstaklega gróða sem sprettur af nýtingarrétti atvinnurekenda á sameiginlegum auðlindum.
 • Að leitað verði leiða til að draga úr flutningskostnaði út á landsbyggðina.
 • Að tryggja öflugt eftirlit til að koma í veg fyrir að atvinnurekendur mismuni starfsmönnum sínum eða tryggi ekki örugg vinnuskilyrði.
 • Að einkarekstur í mennta- og velferðarkerfinu komi ekki til greina.
 • Að opinber þjónusta sem skiptir sköpum um líf og framtíð fólks sé ekki féþúfa einkaaðila heldur njóti allir sömu kjara.
 • Að verkfallsrétturinn sé virtur.
 • Að staðið verði vörð um Ríkisútvarpið sem fjölmiðil í almannþágu.
Sveigjanleiki og aukin tækifæri
 • Að leggja áherslu á að skapa störf án staðsetningar.
 • Að áhersla verði lögð á að fötlun komi ekki í veg fyrir atvinnuþátttöku.
 • Að skapa aukið svigrúm í framleiðslu landbúnaðarafurða og fyrir bændur til að markaðssetja sig og framleiðslu sína.
Menntun óháð efnahag
 • Að grunnskólar sjái nemendum sínum fyrir að minnsta kosti einni heitri máltíð á dag þeim að kostnaðarlausu.
 • Að nemendur framhaldsskóla og iðnnemar fái styrki til bóka- og efniskaupa.
 • Að námslán verði hækkuð þannig að námsmenn geti í raun og veru framfleytt sér með þeim.
 • Að börn og ungmenni um allt land geti í auknum mæli fengið styrki til tómstundarstarfs. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir aðlögun ungra innflytjenda.
 • Að fjárframlög til ríkisháskóla verði stóraukin.
 • Að hluta námslánakerfisins verði breytt í styrkjakerfi.
 • Að unnið sé að raunverulegu gjaldfrelsi allra skólastiga (leik-grunn-framhalds- og háskóla.)
Menntun fyrir alla landsmenn
 • Að réttur allra til náms óháð búsetu sé tryggður.
 • Að stutt sé við uppbyggingu fræðasetra og námsvera um land allt svo allir landsmenn hafi möguleika á að stunda fjarnám á framhalds- og háskólastigi.
 • Að stefnt verði að sameiningu opinberra háskólakerfisins og jafnt aðgengi að háskólamenntun verði í raun tryggð fyrir alla landsmenn.
 • Að rekstrargrundvöllur símenntunarstöðva landsbyggðarinnar sé tryggður.
 • Að sérstök rækt sé lögð við menntun innflytjenda og barna þeirra og þeim tryggð góð íslenskukennsla.
 • Að innflytjendabörnum sé tryggð kennsla í eigin móðurmáli og stutt við erlenda foreldra í að viðhalda móðurmáli barna sinna.
 • Að sem flestum innflytjendum sé gert kleift að útskrifast með stúdentspróf með eigið móðurmál sem fyrsta mál.
Lýðræði og sanngirni í skólastarfi
 • Að lýðræðisleg þátttaka nemenda í skólastarfi sé tryggð, þeir aldir upp í lýðræðislegum vinnubrögðum og upplýstir um réttindi sín og skyldur.
 • Að nemendur framhalds- og háskóla njóti réttinda til jafns við einstaklinga á atvinnumarkaði, þar með talið réttinda til veikindadaga, hádegisverðarhlés og annarra almennra réttinda.
 • Að brottfall í framhaldsskólum sé lágmarkað með því að því að bjóða uppá fjölbreyttar mislangar námsleiðir og standa vörð um félagslegt umhverfi í skólasamfélaginu.
 • Að boðoð verði upp á viðunandi námsaðstöðu fyrir nemendur með sérþarfir.
 • Að kjör leikskóla- og grunnskólakennara verði bætt.
Fjölbreytni í skólastarfi
 • Að nemendur geti hafið framhaldsskólanám á mismunandi aldri og lokið því á mislöngum tíma.
 • Að opnað verði fyrir frekari möguleika á samstarfi við erlenda skóla og möguleikar á nemendaskiptum verði auknir.
 • Að fræðsla um fjölmenningu verði aukin á öllum skólastigum.
 • Að þörfum nemenda sé mætt í samræmi við þarfir og þroska hvers og eins og tryggt að allir nemendur eigi jafna möguleika á að stunda nám þar sem hæfileikar þeirra njóta sín best.
 • Að hlutur iðn- og verknáms verði aukinn í skólakerfinu og slíkt nám komi fyrr inn í námskrá grunnskóla.
 • Að kynjafræði sé skyldufag í öllum menntaskólum landsins.
 • Að raunprófaðar kennsluaðferðir séu hafðar að leiðarljósi í allri kennslu, og þá sérstaklega í sérkennslu.
Trúfrelsi í raun
 • Að öll trú- og lífsskoðunarfélög eigi jafnan rétt gagnvart ríki og sveitarfélögum.
 • Að einstaklingar fái að iðka trúarbrögð sín án jaðarsetningar og mismununar.
 • Að ríki og kirkja verði tafarlaust aðskilin.
 • Að trúboð í skólum verði bannað á öllum skólastigum.