Kvenfrelsi og mannréttindi

Ung vinstri græn vilja sjá samfélag þar sem grundvallarfrelsi og mannréttindi einstaklinga eru skilyrðislaust virt og einstaklingurinn býr ekki við kúgun af neinu tagi. Forréttindi ákveðinna hópa samfélagsins, sérstaklega hvítra karlmanna, eru óumdeilanleg og er það markmið Ungra vinstri grænna að jafna stöðu fólks um allan heim svo allir hafi jöfn tækifæri.

Kvenfrelsi hefur ekki verið náð og ýmsir ósýnilegir þröskuldar, innbyggðir í karllægt valdakerfið er enn til staðar. Það brýtur á sjálfsákvörðunarrétti kvenna, viðheldur kynbundnum launamun og gerir engar tilraunir til að uppræta kynbundið ofbeldi. Feðraveldið kemur í veg fyrir velgengni kvenna í valda- og stjórnunarstöðum og býr til þröskulda sem eru óyfirstíganlegir fái ríkjandi hugsunarháttur þess að dafna.

Feðraveldið snertir líka aðra þjóðfélagshópa. Staða LGBT fólks í dag er verri en gagnkynhneigðra og sömu tækifæri standa þessum hópi ekki til boða. LGBT fólk hefur þurft að standa í sleitulausri baráttu með mörgum sigrum en þó eru ýmsir slagir ekki enn til lykta leiddir.

Ung vinstri græn gera þá skýlausu kröfu að mannréttindi allra séu virt og að þau þyki sjálfsögð. Það er mikilvægt að þjóðfélagið átti sig á að jöfn meðferð jafngildir ekki alltaf réttlæti. Sértækar aðgerðir fyrir ákveðna hópa eru nauðsynlegar til að takmarka forréttindi meirihlutans.

Ung vinstri græn leggja til eftirfarandi leiðir til að stuðla að kvenfrelsi og mannréttindum:
Manneskjan er ekki markaðsvara
 • Að skipulögð barátta íslenskra yfirvalda gegn mansali verði efld til muna og íslensk stjórnvöld leggi sitt að mörkum til að bæta líf og réttindi kvenna um heim allan.
 • Að barist verði gegn kampavínsklúbbum og sambærilegum stöðum sem fara framhjá lögum um nektardans og vændi.
 • Að eftirlit lögreglu verði aukið til að koma í veg fyrir mansal og vændi, og vændisauglýsingar í dagblöðum stöðvaðar.
 • Að farið verði með nafnbirtingar dæmdra vændiskaupenda líkt og annarra sambærilegra afbrotamanna.
 • Að stjórnvöld styðji við samtök sem aðstoða konur við að komast úr vítahring mansals og vændis og að vinna úr reynslu sinni.
 • Að staðgöngumæðrun verði ekki heimiluð.
Aðstoð fyrir fórnarlömb ofbeldis
 • Að hægt verði að flytja grunaða ofbeldismenn af heimili sínu vegna rökstudds gruns um heimilisofbeldi.
 • Að réttarstaða fórnarlamba kynbundins ofbeldis sé tryggð og fórnarlömbunum veittur aukinn stuðningur og aðstoð.
 • Að félagsleg úrræði fyrir fórnarlömb vændis og annars kynferðislegs ofbeldis verði aukin.
 • Að úrræði á landsbyggðinni fyrir konur sem verða fyrir ofbeldi verði bætt.
 • Að stjórnvöld styðji við samtök og verkefni sem veita brotaþolum aðstoð við að vinna úr reynslu sinni.
 • Að tryggð verði hraðari málsmeðferð og vandaðri viðbrögð sérhæfðs rannsóknarlögreglufólks í kynferðisbrotamálum.
 • Að tryggð sé sanngjarnari réttarfarsleg meðferð kynferðisbrotamála á öllum stigum dómskerfisins.
 • Að forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi verði efldar og að áhersla sé lögð á að í slíkum málum er aldrei við fórnarlömb að sakast.
 • Að tekið sé harkalega á kynferðisbrotamálum innan opinberra stofnanna. Sérstaklega verður tekið á málaflokknum eins og hann snýr að fötluðum einstaklingum.
 • Að raunverulegum úrræðum fyrir þolendur stafræns kynferðisofbeldis verði komið á laggirnar.
Meðvituð barátta fyrir kynfrelsi
 • Að sporna gegn klámvæðingu og staðalímyndum kynjanna með því að leggja áherslu á aukna fræðslu meðal grunn- og framhaldsskólanema um samskipti kynjanna, kynfrelsi og kynlíf.
 • Að hugtakið klám verði skýrt skilgreint í lögum og gera þá kröfu til löggæslunnar að ákvæðum um klám sé framfylgt.
 • Að hérlendis sem í öðrum heimshornum sé réttur kvenna og yfirráð þeirra yfir eigin líkama hvergi skertur, og þær hafa rétt til fóstureyðinga því samkvæmt.
 • Að kynjasjónarmið verði höfð til hliðsjónar við mótun opinberrar stefnu og allar aðgerðir hins opinbera.
Réttindi hinsegins fólks
 • Að tekið verði á hatursorðræðu gegn hinsegin fólki.
 • Að stjórnvöld geri ættleiðingasamninga við ríki sem heimila ættleiðingar til samkynhneigðra para.
 • Að banni við blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna verði aflétt.
 • Að stjórnvöld aðstoði einstaklinga í kynleiðréttingarferli, að einstaklingar hafi rétt til kynskráningarbreytingar að eigin ósk og frumkvæði og að stuðningur frá hagsmunasamtökum transfólks sé því gerður aðgengilegur.
 • Að önnur kyn en kalkyn og kvenkyn verði leidd í lög og að fólki sé ekki gert að skilgreina kyn sitt sem karlkyn eða kvenkyn á opinberum skjölum.
 • Að óheimilt verði að gera aðgerðir á kynfærum intersex barna nema um læknisfræðilega nauðsyn sé að ræða.
 • Að samkynja pörum sé ekki gert að skrá faðerni barns á opinber skjöl.
Samfélagsleg staða kvenna
 • Að stjórnvöld og atvinnulífið taki af alvöru á kynbundnum launamun og beiti róttækum aðgerðum til að laga hann.
 • Að minnst helmingur kjörinna fulltrúa séu ekki karlkyns.
 • Að jafnréttisfræðsla verði stórefld.
 • Að konum sé ekki gert að skrá faðerni barns á opinber skjöl, sér í lagi þegar um kynferðisbrot er að ræða.
Málefni flóttafólks og hælisleitenda
 • Að farið verði í verulegar umbætur í málefnum flóttafólks og hælisleitenda.
 • Að hætt verði að refsa flóttafólki fyrir að sýna fölsuð skilríki.
 • Að málsmeðferðartími í málaflokknum verði styttur allverulega og að öllum málum sé sinnt án óviðunandi tafa.
 • Að farið verði eftir alþjóðlegum skuldbindingum landsins í málaflokknum.
 • Að Dyflinnar-sáttmálinn sé ekki notaður sem skálkaskjól til að vísa fólki á
 • Að Útlendingastofnun verði lögð niður í núverandi mynd.
 • Að jafnframt verði tekið á móti fleira flóttafólki og hælisleitendum með mannsæmandi hætti.