Félagsleg alþjóðahyggja

Ung vinstri græn grundvalla utanríkisstefnu sína á hugsjónum friðarstefnu og félagslegrar alþjóðahyggju.

Markmiðið er að tryggja öllum þau mannréttindi að þurfa ekki að búa við kúgun og ófrið, hvar sem þau búa í heiminum. Því er hernaðarhyggja undantekningarlaust fordæmd sem og öll viðleitni til að grípa til vígbúnaðar, hvort sem það er í löggæslu, hernaði eða nokkurri annari aðkomu að vopnvæðingu, s.s. framleiðslu, sölu, vistun eða flutningi vopna. Ísland á að vera herlaust land og verða hvorki viðvera erlendra herja hérlendis né íslensk friðargæsla sem samanstendur af mönnum með drápstól umborin. Sömuleiðis er óforsvaranlegt að Ísland taki þátt í alþjóðasamstarfi sem felur í sér hernað eða svokallað „varnarsamstarf“.

Hér heima fyrir þarf sömuleiðis að gera gagnskör í að gera alþjóðavæðinguna mannvæna, tryggja innflytjendum sömu réttindi og öðrum þjóðfélagshópum og bjóða þeim upp á sértæk úrræði í menntun og starfi.

Ung vinstri græn vilja að Ísland leggi sitt af mörkunum til að útrýma fátækt og hungri í heiminum, bæði með aukinni þróunarsamvinnu og sértækari verkefnum. Þá er sérstaklega rík áhersla lögð á að Íslendingar axli ábyrgð gagnvart þeim sem þjóðin hefur brotið gegn í gegnum tíðina og aðstoði sérstaklega við uppbyggingu þar í löndum.

Ísland ætti ætíð að standa með sjálfsákvörðunarrétti þjóða, hvort sem það er í Færeyjum eða Baskalandi. Sá árangur sem náðst hefur í málefnum Palestínu má ekki skyggja á aðrar þjóðfrelsisbaráttur eða verða til þess að deiginn sígi í þeirri baráttu.

Ung vinstri græn leggja til eftirfarandi leiðir til að ísland geti orðið talsmaður Félagslegrar alþjóðahyggju:
Nei við hernaði
 • Að leitt verði í lög bann við framleiðslu, sölu og flutningi vopna.
 • Að fjármunum almennings sé ekki sóað í heræfingar erlendra vígamanna og annað hernaðarbrask.
 • Að Landhelgisgæslan afvopnist og sinni sínu hlutverki sem löggæsla til sjávar án vígbúnaðar.
 • Að Ísland segi sig úr NATÓ.
 • Að Ísland beiti sér fyrir afvopnun á alþjóðavettvangi.
 • Að Ísland beiti sér gegn hernaðarbrölti Norðurlanda.
Mannúðleg alþjóðahyggja
 • Að íslensk stjórnvöld auki á markvissan hátt samvinnu við fátæk ríki á jafnréttisgrundvelli til að styrkja innviði þeirra.
 • Að innflytjendur hafi jöfn réttindi og tækifæri á við aðra þjóðfélagshópa og standi til boða sértæk úrræði í menntun.
 • Að sértæk úrræði séu í boði á vinnumarkaði fyrir innflytjendur.
Sanngjörn utanríkisstefna
 • Að íslensk stjórnvöld axli ábyrgð á stuðningi sínum við stríðið í Írak og aðstoði sérstaklega við uppbyggingu innviða samfélagsins þar í landi.
 • Að Ísland biðjist jafnframt sérstaklega afsökunar á stuðningi sínum við þjálfun pyntingasveita í Írak.
 • Að Ísland verji að lágmarki 1% af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu.
 • Að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að bundinn sé endir á siðlausa viðskiptahætti og arðrán í fátækum löndum.
 • Að fátæk ríki séu leyst úr skuldasnöru þeirri sem arðrán Vesturlanda kom þeim í til að byrja með.
 • Að íslensk stjórnvöld þrýsti enn frekar á Ísrael að viðurkenna landamærin frá 1967 og skili palestínsku þjóðinni þeim svæðum sem það hefur stolið.
 • Að Ísland standi ávallt með sjálfsákvörðunarrétti þjóða.
 • Að Ísland standi utan Evrópusambandsins.