Réttur kvenna til að ráða yfir eigin líkama – Um fóstureyðingarlöggjöf í Póllandi

By 5. July, 2016 Fréttir, Uncategorized

Snemma á þessu ári hófu Ung vinstri græn samstarf við systurhreyfingu okkar, Ostra Zielen frá Póllandi sem er ungliðahreyfing pólska græningjaflokksins Partia Zieloni. Ungliðahreyfingin bauð framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna til Póllands til að taka þátt í Pride göngunni í Varsjá með þeim ásamt því að styrkja tengslin á milli hreyfinganna og kynnast betur

Við, Snæfríður, Gyða og Silja, lögðum því af stað til Póllands og var þetta svo sannarlega viðburðarrík ferð. Við kynntumst frábæru fólki, bæði úr græningjaflokknum og ungliðahreyfingunni ásamt sjálfboðaliðum sem sáu um Pride gönguna, tókum þátt í Pride göngunni ásamt því að skoða Varsjá og læra um menningu og sögu borgarinnar. Við ræddum að sjálfsögðu mikið um pólitík við meðlimi græningjaflokksins og ungliðahreyfinguna og það var mjög áhugvert að bera saman siði, venjur, lög og reglur í löndunum tveimur. Löndin eru að mörgu leyti mjög lík en þó eru mikið af réttindum sem við Íslendingar teljum sjálfsögð sem þarf ennþá að berjast fyrir í Póllandi.

Eitt af því sem kom til umræðu var hið umdeilda frumvarp um nýja fóstureyðingarlöggjöf þar í landi sem var lagt fyrir pólska þingið í apríl. Í frumvarpinu er kveðið á um löggjöf sem mun banna konum að fara í fóstureyðingu undir öllum kringumstæðum. Nú þegar eru lögin um fóstureyðingar mjög ströng í Póllandi en konum er bannað að fara í fóstureyðingu að undanskildum þremur kringumstæðum: ef líf eða heilsa konunnar er í hættu af áframhaldandi meðgöngu, ef þungun er afleiðing nauðgunar, eða ef fóstrið greinist með alvarlegan fósturskaða. Ef um er að ræða þungun eftir nauðgun þarf þó dómari að úrskurða um það hvort nauðgunin hafi átt sér stað og læknir þarf að gefa samþykki ef þungunin ógnar heilsu móður eða fósturs. Konur í Póllandi hafa því ekki frjálst val varðandi fóstureyðingar í dag, hvað þá ef nýja löggjöfin tekur við. Frumvarpið hefur ekki ennþá verið afgreitt og formaður ungliðahreyfingarinnar sem við fórum að hitta sagði að núverandi ríkisstjórn ætti það til að afgreiða frumvörp án nokkurs fyrirvara. Hún sagðist því lifa við þann ótta að vakna einn morguninn og frétta að frumvarpið hafi verið samþykkt um nóttina.

Frumvarpið mun koma mun harkalegar niður á efnaminni konum þar sem efnameiri konur geta farið yfir til nágrannalanda og keypt sér þessa þjónustu en þær fátækari hafa ekki þann kost. Nú þegar eru ólöglegar fóstureyðingar framkvæmdar en með nýju löggjöfinni má gera ráð fyrir að þær aukist talvert. Fóstureyðing sem er ekki framkvæmd undir læknishendi getur verið lífshættuleg og er því þessi herta löggjöf mikið áhyggjuefni. Nánast alla tíð hafa verið til aðferðir sem gera konum kleift að losna við óvelkomna þungun. Margar þeirra aðferða geta ógnað lífi kvennanna, verið óhugsanlega sársaukafullar og að öllu leyti hræðileg lífsreynsla. Lengi hafa verið notuð herðatré við fóstureyðingar en herðatré hafa einmitt verið notuð núna í Póllandi til að mótmæla frumvarpinu.

Frumvarpið er stórt skref aftur á bak í réttindabaráttu kvenna þar sem lengi hefur verið barist fyrir rétt kvenna til fóstureyðinga og rétti kvenna að fá að ráða yfir eigin líkama. Rétt er að benda á að fóstureyðingarlöggjöfin á Íslandi er frá árinu 1975 og er þar kveðið á um að ef kona hyggst fara í fóstureyðingu þurfa tveir aðilar óskyldir konunni að samþykkja beiðni hennar um þungunarrof. Þessi lög eru barns síns tíma og löngu tímabært að uppfæra þau. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur sagt að hann hyggst endurskoða löggjöfina og stefnir á að leggja fram frumvarp um málið á næsta haustþingi 2016.

Við sendum pólskum konum hlýja strauma og vonum af öllu hjarta að frumvarpið verði ekki samþykkt.

Á meðan á heimsókninni stóð var verið að safna undirskriftum gegn frumvarpinu en þar sem einungis pólskir ríkisborgarar gátu skrifað undir þá setti ég saman smá myndaseríu með meðlimum framkvæmdastjórnar og landstjórnar Ungra vinstri grænna með hinu táknræna herðatré í mótmælaskyni.

– Snæfríður Sól Thomasdóttir, Aðalritari UVG

13621889_10206738592080308_760600835_o 13621746_10206738592160310_1972840761_o

13570306_10206738591720299_1911857786_o 13621612_10206738591440292_986748107_o  13575663_10206738591760300_1486886028_o 13569903_10206738592200311_1172178994_o 13589102_10206738589840252_1257344689_o

Save