Nú árið er liðið

By 2. January, 2016 Pistlar

ragnarNú árið er liðið í aldanna skaut

og aldrei það kemur til baka,

nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,

það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,

en minning þess víst skal þó vaka.

En hvers er að minnast og hvað er það þá,

sem helst skal í minningu geyma?

 

Þannig orti séra Valdimar Briem. En hvaða eftirminnilegu atburðir áttu sér stað á árinu sem nú er liðið?

Árið 2015 hefur verið viðburðarríkt ár fyrir margar sakir. Samfélagsmiðla- og brjóstabyltingar undanfarins árs sýna svo ekki verður um villst að krafan um kvenfrelsi verður sífellt háværari, það er í byltingum svo sem Free The Nipple og #sexdagsleikinn sem ég finn fyrir forréttindunum mínum sem karlmaður. Jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð það eru enn ýmsir ósýnilegir þröskuldar innbyggðir í karllæga valdakerfið sem er við lýði hér á Íslandi.

Með því hugrekki og samstöðu þeirra kvenna sem stóðu að byltingunum á þessu ári verðum við einn daginn fær um að stöðva klámvæðingu, kynferðisofbeldi og kvennakúgun feðraveldisins í öllum sínum myndum. Með því að neita að láta skilgreina sig og skammast sín fyrir líkama sína eða það ofbeldi sem þær eru beittar slá konur vopnin úr höndum kúgara sinna. Aðeins þannig munum við einn daginn ná markmiði okkar um jafnan hlut kynjanna. Fyrir mér eru konurnar sem standa á bakvið þessar byltingar, konurnar sem hafa sýnt þetta hugrekki, manneskjur ársins.

Þann 9. desember var samþykktur hinn ágætasti loftslagssamningur á loftlagsráðsstefnunni COP21 í París, m.a. Sett var markmið um að halda hlýnun lofthjúpsins vel innan við 2°C og jafnframt verður reynt að halda hlýnuninni innan við 1,5°C. Samningurinn er ekki bara fagnaðarefni fyrir alla umhverfissinna heldur heiminn allan og það er okkar borgara sem og stjórnvalda um allan heim að standa við þennan samning.

Árið 2015 var þó ekki bara samansafn af vel heppnuðum byltingum og mikilvægum samningum. Hægri stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hélt áfram verkefni sínu að ala á ójöfnuði í samfélaginu og að gera vel við þá ríku, á meðan þeir sem minna mega sín sitja á hakanum. Skattalækkunin í fjárlögum fyrir árið 2016 er einna helst miðuð að miðþrepinu þ.e. fyrir þá sem hafa tekjur á bilinu 309 þús. – 836 þús. sem fá um 1.4% skattalækkun en þeir sem eru í neðsta skattþrepinu einungis 0.18%.

Á þessu ári hafa flestar stéttir fengið leiðréttingu launa en þó ekki aldraðir og öryrkjar, þegar aldraðir og öryrkjar kröfðust leiðréttingu launa líkt og aðrir höfðu fengði gerði ríkisstjórnin ekkert nema að sýna þeim fingurinn.  Það er þó ekki furðulegt þegar manni er hugsað til orða Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra þegar hann sagði að jöfnuður hefði líklegast aukist um of, þegar þau orð eru höfð í huga þá er það skiljanlegt að veiðigjöldin lækki þriðja árið í röð, þá er það skiljanlegt að Þjóðkirkjan hafi fengið 409 milljónum meira í ár en árið áður og þá er það skiljanlegt að ríkissjóður hafi borgaði 500 milljónir til að flytja gamlan grjótgarð stein fyrir stein frá einum stað til annars að kröfu forsætisráðherra.

Ekkert lát var á vanskilningi stjórnvalda á vandamálum Landspítalans, ráðamenn tönnlast á þeir séu að setja heimsmeti í fjárveitingum til spítalans en gera sér ekki grein fyrir því að spítalinn hefur verið fjársveltur svo lengi að hann þarfnast hærri fjárveitinga. Nánast hver og einn einasti starfsmaður spítalans hefur farið í verkafall á þessu ár, en í stað þess að reyna að vinna úr vandamálunum með starfsmönnum spítalans fannst ríkisstjórninni heppilegra að setja lög á hjúkrunarfræðinga og siga svo bolabít Framsóknar, hæstvirtum formanni fjárlaganefndar Vigdísi Hauksdóttur á forstjóra Landspítalans, til þess að kóróna dólginn og yfirganginn í núverandi ríkisstjórn.

Margt hefur gengið á undanfarið ár, þegar ég hugsa aftur um orðin í sálmi Valdimars Briem þá veit ég, að ég vil ekki geyma í minningu dólgslæti ríkisstjórnarinnar, ég mun ekki vilja minnast eymdarinnar sem ríkti í heilbrigðiskerfinu en þessar minningar verður að varðveita til þess að þær endurtaki sig ekki. Öðru máli er að gegna með loftslagssamninginn og kvennfrelsisbyltingarnar, það eru atburðir sem ég mun glaður í minningu geyma.

Ragnar Auðun Árnason,

Alþjóðaritari Ungra vinstri grænna