Nokkur orð um geðheilbrigði

By 10. October, 2016 Uncategorized

Nokkur orð um geðheilbrigði

gisli-frambo

Gísli Garðarsson 4. sæti Reykjavík suður

Í minningunni finnst mér eins og ég hafi einhvern tímann verið hamingjusamur, þó það hafi fyrir allnokkru síðan fennt yfir það nákvæmlega á hvaða tímapunkti ég missti tökin á sjálfum mér. Ég þori samt ekki að fullyrða það lengur. Kannski var ég alltaf svona. Kannski gerðist það í tíma og rúmi sem hægt væri að afmarka, ef ég aðeins leitað

i nógu lengi að því. Kannski – líklega – gerðist það yfir margra ára tímabil þar sem alls konar áföll hjuggu smám saman skarð í sálarlífið. Ég bara veit það ekki. En ég veit að ég byrjaði snemma að reyna að laga það. Fyrst með tóbaki. Svo með áfengi. Svo með stolnum lyfjum. Svo með kannabis. Og ó svo fjöldamörgum óheilbrigðum samböndum sem ég ætlaðist líklega til að myndu gera mig heilan án þess að ég áttaði mig á því. Allavega ekki fyrr en bara mjög nýlega.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Svona eftir á að hyggja hefði ég ef til vill getað sagt mér að þessi vegferð myndi enda inni á lögreglustöð, niðri á bráðamóttöku geðdeildar, inni á meðferðarheimilum, í sófanum hjá geðlækninum – á alla þessa skrýtnu og furðulegu staði sem ég hefði aldrei trúað fyrirfram að geðveikin ætti eftir að leiða mig á í gegnum árin.
En það er einmitt vandinn við geðveikina að hún fær mann til þess að trúa að hún sé ekki að verki. Að það sé heimurinn sem sé lasinn en ekki maður sjálfur.
Afneitun og meðvirkni reka allt of mörg okkar svo langt inn í sjálf okkur að við eigum jafnvel ekki afturkvæmt; og, því miður, í snemmbúna gröfina.

Samkvæmt nýlegri skýrslu World Health Organization eru þunglyndi og fíkn meðal þeirra fimm sjúkdóma sem á Vesturlöndum ræna flestum góðum æviárum af fólki. Sjálfsvíg eru í dag algengasta dánarorsök íslenskra karlmanna á aldrinum 18 – 25 ára. Nýleg fræðsluátök um geðsjúkdóma á borð við Hugrúnu – geðfræðsluátak og Geðsjúk (#égerekkitabú) hafa vakið með almenningi vitund um hversu algengir geðsjúkdómar eru og hversu mikil hætta stafar af þeim – og hjálpað fólki eins og mér að takast á við geðsjúkdóma sína og að tala um baráttuna við þá í þeirri von að umræðan hjálpi fleirum og slái á fordóma í samfélaginu.

Baráttunni gegn geðsjúkdómum stendur ýmislegt fyrir þrifum. Geðheilbrigðisþjónusta á að mínu mati að vera hluti af gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, þannig að kostnaður standi ekki í vegi fyrir því að neinn fái þá faglegu aðstoð sem hann, hún eða hán þarf á að halda. Þessu fylgir að sjálfsögðu sú krafa að stjórnvöld láti undir eins af fjársveltistefnu síðustu áratuga og fjármagni heilbrigðiskerfið tilhlýðilega. Sömuleiðis tel ég að það þurfi að endurskoða lyfjagreiðslukerfið með sömu hugmyndafræði að leiðarljósi. Hið opinbera ætti að tryggja réttindi geðsjúkra, efla forvarnir í geðheilbrigðismálum og vinna gegn fordómum um geðsjúkdóma. Sálfræðiþjónustu á jafnframt að niðurgreiða eins og aðra heilbrigðisþjónustu og tryggja slíka þjónustu í öllum framhaldsskólum án kostnaðarþátttöku nemenda.

Ég veit ekki hvort þessar tillögur mínar að betrumbótum í heilbrigðiskerfinu, komi þær til framkvæmda, muni koma í veg fyrir að fleiri þurfi að feta sig í gegnum þetta þyrnigerði eins og ég hef sjálfur þurft að gera. Ég efast raunar stórlega um það. En ef til vill kemur það í veg fyrir það í einhverjum tilvikum. Auðveldar þetta ferðalag í öðrum. Hjálpar enn öðrum að skilja fyrr hvað búi að baki, hver viðeigandi úrræði séu og að það sé ekki bara í lagi heldur sjálfsagt að nýta sér þau – og öllum hinum að skilja það og virða.

Ég held að það muni aldeilis um minna.

Höfundur er fornfræðingur og skipar fjórða sæti á framboðslista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Greinin birtist fyrst á kvennabladid.is