0

Niður með Útlendingastofnun og Dyflinnarreglugerðina

By 24. September, 2019 Uncategorized

Ályktunin tengist sextánda heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna.

Landsfundur Ungra vinstri grænna haldinn í Mosfellsdal helgina 14.-15. september 2019 skorar á nýskipaðan dómsmálaráðherra að leggja niður Útlendingastofnun í núverandi mynd og bæta þannig stöðu fólks á flótta í takt við stjórnasáttmála ríkisstjórnarinnar. Ung vinstri græn taka þannig undir tillögu Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands frá 2017 um að Útlendingastofnun verði lögð niður og sett verði á fót ein stofnun sem heldur utan um alla þjónustu við útlendinga, innflytjendur, umsækjendur um alþjóðlega vernd og fólk með stöðu flóttafólks.

Útlendingastofnun hefur kerfisbundið sýnt ómannúðleg vinnubrögð við afgreiðslu hælisumsókna og landvistarleyfa. Ólíðandi er að stofnunin skýli sér á bakvið Dyflinnarreglugerðina og taki ekki allar umsóknir til efnislegrar meðferðar. Einnig miðar stofnunin við lista yfir “örugg lönd” sem engan veginn endurspeglar raunverulegar aðstæður í þeim löndum, sem er óforsvaranlegt.

Útlendingastofnun hefur gerst sek um að brjóta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna auk þess sem mikill greinarmunur er gerður á kvótaflóttafólki og öðrum umsækjendum um alþjóðlega vernd. Tryggja þarf að við afgreiðslu umsókna séu mannréttindi höfð að leiðarljósi og að öll sem hingað leita eftir vernd standi á jafningjagrundvelli. Fólk á flótta og hælisleitendur eiga einnig rétt á að fá hér fullnægjandi og mannsæmandi sálræna, félagslega og efnislega aðstoð á meðan verið er að vinna í máli viðkomandi.

Við höfum ákveðnum skyldum að gegna hvað mannréttindi og mannúð varðar. Uppfyllum þessar skyldur þegar fólk á flótta og hælisleitendur eiga í hlut.

 

Greingerð með ályktun:

Dyflinnarreglugerðin, með síðari breytingum, felur meðal annars í sér viðmið og reglur fyrir aðildarríki Schengen-samstarfsins þegar kemur að málefnum hælisleitenda. Þannig er stjórnvöldum heimilað að senda hælisleitanda aftur til þess Schengen-ríkis sem viðkomandi kom fyrst til. Í nýjustu Dyflinnarreglugerðinni er þó kveðið á um að ekki megi senda hælisleitanda aftur til ríkis þar sem hætta er á að hann sæti ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Það er  með öllu ólíðandi að fólk á flótta, þá sér í lagi börn og fjölskyldur þeirra, sé sent burt úr landi í skjóli nætur á grundvelli úreltrar reglugerðar líkt og Dyflinnarreglugerðarinnar. Oftar en ekki er um fólk að ræða sem hefur þurft að bíða lengi eftir úrskurði og er jafnvel farið að festa rætur hér og mynda tengsl við landið og heimamenn. Og oftar en ekki er fólk sent aftur til ríkja sem eru á ákveðnum lista yfir örugg lönd en fréttir úr viðkomandi löndum sýna fram á allt annað.

Árið 2010 var endursendingum umsækjenda um alþjóðlega vernd til Grikklands frá Íslandi hætt vegna þess að aðstæður í gríska hæliskerfinu voru taldar ófullnægjandi. Hins vegar hefur endursendingum til Grikklands ekki verið hætt hafi umsækjendur um vernd á Íslandi þegar hlotið alþjóðlega vernd þar í landi. Það er gert þrátt fyrir að alþjóðastofnanir upplýsi með reglubundnum hætti um slæma stöðu fólks á flótta á Grikklandi og þá sér í lagi barna. Í flóttamannabúðum í Grikklandi búa fjölskyldur víða í tjaldbúðum og aðeins rúmur helmingur barnanna fær aðgang að menntun. Foreldrar hafa ekki möguleika á að sækja vinnu og sjá fjölskyldu sinni farborða. Fjöldi ungs fólks undir lögaldri er eitt á báti í flóttamannabúðunum en þessi hópur er sérstaklega berskjaldaður og í hættu á að lenda í klóm kynferðisafbrotamanna og mansals.

Það er  með öllu ólíðandi að fólk á flótta, þá sér í lagi börn og fjölskyldur þeirra, sé sent burt úr landi í skjóli nætur á grundvelli úreltrar reglugerðar líkt og Dyflinnarreglugerðarinnar. Oftar en ekki er um fólk að ræða sem hefur þurft að bíða lengi eftir úrskurði og er jafnvel farið að festa rætur hér og mynda tengsl við landið og heimamenn. Og oftar en ekki er fólk sent aftur til ríkja sem eru á ákveðnum lista yfir örugg lönd en fréttir úr viðkomandi löndum sýna fram á allt annað.

Í ríkisstjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 30. nóvember 2017 er fjallað um fólk á flótta. Þar er það fullyrt að aldrei hafi fleiri verið á flótta vegna stríðsátaka, ofsókna og umhverfisvár. Ísland muni leggja sitt á vogarskálarnar til að leysa úr flóttamannavandanum og taka á móti fleiri flóttamönnum. Til grundvallar þessa munu mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar og áhersla á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd. Samfelld þjónusta og aðstoð við þá sem fá alþjóðlega vernd verði tryggð. Lagt er upp með að koma á laggirnar þverpólitískri þingmannanefnd sem metur framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoðar þau (Stjórnarsáttmálinn, 2017).