Miðhálendisþjóðgarður

By 26. September, 2016 Pistlar

sigrun-greinMiðhálendisþjóðgarður

Landsvæði Íslands er nýtt þannig að byggðin er yst á landinu, við ströndina en stundum nær byggðin aðeins inn í uppsveitir. Við höfum því risastórt svæði sem er ekki í byggð. Þetta svæði, sem við köllum vanalega miðhálendið, er einstök náttúruperla. Svona einstakt svæði finnst hvergi annarsstaðar í heiminum. Á miðhálendinu má meðal annars finna eldfjöll, jökla, vatnsmiklar ár og fossa, litrík háhitasvæð, víðfeðm hraun og svartar sandauðnir. Þetta er svæði sem þarfnast verndunar og til þess er nauðsynlegt að stofna þjóðgarð. Þetta svæði er gríðarstórt og til viðmiðunar er hægt að taka Grand Canyon þjóðgarðinn í Bandaríkjunum sem að er tæplega fimmþúsund ferkílómetrar en fyrirhugaður Miðhálendisþjóðgarður yrði á milli þrjátíuogfimm og fjörutíu þúsund ferkílómetra. Það eru margir sem koma að hálendinu, hvort sem það eru ferðamenn, göngufólk, náttúru- og dýraunnendur eða annarskonar útivistarfólk. Því er nauðsynlegt að hafa mikið skipulag svo að þeir sem að munu njóta góðs af þjóðgarðinum verði ekki undir einhverjum öðrum.

Með því að vernda náttúruna með þessum hætti erum við ekki bara að gefa okkur sjálfum tækifæri til þess að njóta þessarar einstöku náttúru heldur framtíðinni, komandi kynslóðum. Ísland er um 15 til 25 milljón ára gamalt og því hefur hálendið verið að mótast og breytast frá upphafi. Við verðum að leyfa náttúrunni að fá að breytast í friði og í leiðinni getum við fengið að njóta hennar á einstakan hátt. Virkjanir og háspennulínur munu eyðileggja ímynd hálendisins.

Til þess að þjóðgarðurinn geti orðið að veruleika er mikilvægt að hafa mikið og gott skipulag. Það þarf að leggja mikla vinnu í skipulagið sjálft og er hægt að nota kosti og galla eftir að Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður. Vatnajökulsþjóðgarður er stofnun sem rekin er af þeim sveitafélögum sem að þjóðgarðurinn nær yfir. Sem dæmi um eitthvað sem hægt er að gera þegar kemur að skipulagi þjóðgarðsins sem að ekki var gert í skipulagi Vatnajökulsþjóðgarðs er að fá landeigendur og aðra slíka hagsmunahópa með gerð skipulagsins. Einnig er spuring um hvort að slíku þjóðgarður yrði í umsjón sveitafélaga eða ríkisins.

Að lokum vil ég minna ykkur á það að við hér á landi erum svo heppin að hafa þessa ósnertu náttúru en erum á góðri leið með að eyðileggja hana. Við höfum öll tækifæri til þess að vera fyrirmyndir í umhverfisvernd og hvet ég ykkur öll til þess að nýta ykkur það tækifæri.

Sigrún Birna Steinarsdóttir, Landstjórnarfulltrúi UVG