Málefni ungs fólks eða allra?

By 27. October, 2016 Uncategorized

Málefni ungs fólks eða allra?

 

MyndMálefni ungs fólks hafa verið mikið í deiglunni undanfarið. Ungt fólk hefur setið eftir! Kaupmáttur þeirra hefur einungis hækkað um 9% frá 1990 á meðan kaupmáttur fólks á aldrinum 30 – 64 ára hefur hækkað um 52%. Það er því deginum ljósara að bæta þarf stöðu ungs fólks í samfélaginu.
En hvað eru málefni ungs fólks? Er það húsnæðisvandinn? Er það laskað menntakerfi? Er það slæmt ástand geðheilbrigðismála eða jafnvel meingallað lánasjóðskerfi? Málefni ungs fólks er einungis hugtak sem stjórnmálamenn hafa notað yfir þau mál sem þeir tala alltaf um að þurfi að bæta en falla samt alltaf milli stafs og hurðar. Húsnæðisvandinn er málefni sem snertir allt samfélagið og ástandið í heilbrigðiskerfinu er það líka, málefni framtíðar kynslóða eru málefni alls samfélagsins.

Ungt fólk er oft efnaminna fólk, sem þarf að treysta á kerfið, hvort svo það sé vegna þess að það er í námi, vegna veikinda eða er að reyna fóta sig á húsnæðismarkaðnum og stundum allt í einu. Bágrar stöðu má einfaldlega reka til ójöfnuðar í samfélaginu, ójöfnuður sem sést einfaldlega best á því að ríkustu 10% landsmanna eiga um 75% auðs í landinu.

Þó að því beri að fagna að rætt sé meira um málefni ungs fólks og að loks eigi að huga að stöðu ungs fólks í samfélaginu þá má því ekki gleyma að málefni ungs fólks er málaflokkur sem ekki aðeins ungt fólk á að láta sig varða. Heilbrigðiskerfið okkar er fjársvelt sem og menntakerfið, þá er Lánasjóður íslenskra námsmanna úreltur og húsnæðismarkaðurinn er í tómu tjóni. Það er mikilvægt að á Íslandi sé heilbrigt húsnæðiskerfi, það er ekki boðlegt að fólk þurfi að steypa sér í skuldir til þess að komast úr foreldrahúsum. Það er nauðsynlegt að hér sér almennilegt menntakerfi sem veitir fólki jafnan aðgang til náms og hér þarf að vera heilbrigðiskerfi sem er ekki einungis fyrir þá ríku en á sama tíma er ekki að molna niður. Þessum málum þarf að sinna ef ungt fólk á að geta séð sér fært um að búa á Íslandi.

Málefni ungs fólks eru málefni samfélagsins, þau hafa komið til vegna þess að ekki hefur verið gætt nægilega vel að grunnþjónustu í landinu. Almennileg grunnþjónusta og aukinn jöfnuður er það sem ungt fólk þarf á að halda.

 

-Ragnar Auðun Árnason, Talsmaður UVG