0

Loftslagsverkföll

By 24. September, 2019 Uncategorized

Ályktunin tengist þrettánda heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna.

Landsfundur Ungra vinstri grænna haldinn í Mosfellsdal helgina 14.-15. september 2019 tekur undir áskorun þeirra er standa að loftslagsverkfalli ungs fólks um að stórauka þurfi fjárframlög til loftslagsaðgerða. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) reiknast til að verja þurfi 2,5% af vergri heimsframleiðslu til loftslagsmála á ári til ársins 2035 til að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráðu.

 

Greinagerð með ályktun:

Landsfundur UVG krefst þess að Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5% af vergri þjóðarframleiðslu renna beint til aðgerða tengdum umhverfismálum. Viðhorfsbreyting þarf að eiga sér stað á öllum stigum samfélagsins. Það er ekki nóg að almenningur taki ábyrgð á sínum gjörðum heldur þarf atvinnulífið einnig að axla meiri ábyrgð og framleiðsla þarf að fara fram með umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Við þurfum sameiginlegt átak og aðgerðir af hálfu stjórnvalda og atvinnulífsins sem hvetja neytendur til umhverfisvænni lífsstíls.