Lifi byltingin!

By 31. March, 2015 Ályktanir

Fjölmennur fundur á vegum VG, VGR og UVG á KEX Hostel þann 30. mars 2015 ályktar svo:

Fundurinn hafnar því að líkamar fólks geti verið notaðir gegn því til kúgunar, hafnar yfirráðum klámvæðingar yfir líkömum kvenna, fordæmir þá sem beita stafrænu kynferðisofbeldi og fagnar nýhafinni brjóstabyltingu.

Feðraveldið leitar sífellt nýrra leiða til að viðhalda sér og úr sér gengnum reglum sínum. Samfélagið er gegnsýrt af tvöföldu siðgæði, þar sem stelpur eru hlutgerðar frá barnsaldri og alið á skömm gagnvart líkömum þeirra á sama tíma.

Konur risu upp gegn feðraveldinu miðvikudaginn 25. mars. Konur tóku skilgreiningu á líkömum sínum í eigin hendur, neituðu að skammst sín fyrir líkama sína og slógu þannig vopnin úr höndum ofbeldismanna.

Fundurinn samþykkir það að halda ótrauð áfram að berjast fyrir jafnri stöðu kynjanna, því enn er of langt í að við verðum öll jöfn. Samstaða er mikilvæg og valdeflandi. Feðraveldið má fokka sér okkar vegna. Lifi byltingin!