Hér að neðan er hægt að nálgast ályktanir frá Landsfundi UVG 2018 sem fram fór í Hafnarfirði.

Af ríkisstjórnarsamstarfi

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Hafnarfirði 1.-2. september 2018, setur ennþá
fyrirvara við að Vinstri græn hafi gengið í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið uppvís að síendurteknum spillingarmálum og óheiðarlegum
vinnubrögðum sem leitt hafa til þess að frá hruni hefur engin ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki
staðið heilt kjörtímabil. Nú síðast slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfi vegna spillingarmáls
þar sem reynt var að hylma yfir meðmælabréfi sem faðir þáverandi forsætisráðherra skrifaði
til stuðnings uppreistrar æru barnaníðings.

Ung vinstri græn krefjast þess að þingflokkur Vinstri grænna veigri sér aldrei við að gagnrýna
þegar spillingarmál koma upp. Það að vera í ríkisstjórnarsamstarfi kemur ekki í veg fyrir að
gagnrýna megi samstarfsflokkana. Gagnrýni er mikilvæg í stjórnmálum og þarf ekki að hafa í
för með sér fall ríkisstjórnar.

Þrátt fyrir andstöðu Ungra vinstri grænna við ríkisstjórnarsamstarfið þá felur samstarfið í sér
tækifæri fyrir Vinstri græn til þess að hafa gríðarleg áhrif. Ung vinstri græn fagna því sem hefur
nú þegar áunnist á þeim stutta tíma sem Vinstri græn hafa verið í ríkisstjórn, og þeirri vinnu
sem hefur verið hrint af stað í hinum ýmsu mikilvægu málefnum. Þar má sérstaklega nefna
fjármagn sem hefur verið lagt í eflingu sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum,
geðheilbrigðisáætlun, aðgerðaráætlun til þess að bæta meðferð kynferðisbrota,
umhverfismál og hinsegin málefni. Fullgilding Istanbúlssamningsins og hækkun
hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi eru einnig mál sem Ung vinstri græn telja mikilvægt að hafi
náð fram að ganga. Ung vinstri græn fagna einnig að Vinstri græn hafi sérstaklega beint
sjónum sínum að verkefnum sem lúta að börnum, t.a.m. eflingu ungmennastarfs og bættri
stöðu fátækra barna á Íslandi. Vinstri græn hafa byrjað kjörtímabilið af krafti og Ung vinstri
græn binda vonir við að þau góðu mál sem vinna er hafin við nái fram að ganga og skili
jákvæðum breytingum til samfélagsins.

Ung vinstri græn bera traust til ráðherra Vinstri grænna en munu eftir sem áður fylgjast grannt
með ríkisstjórnarsamstarfinu og fordæma gjörðir sem eru þvert á stefnu Vinstri grænna og í
andstöðu við vilja grasrótarinnar.

Stöðvum fyrirhuguð umhverfisspjöll vegna virkjunar Hvalár

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Hafnarfirði 1.-2. september 2018, leggst gegn
virkjun Hvalár í Árneshreppi á Ströndum. Í mati umhverfisstofnunar segir að framkvæmd
Hvalárvirkjunar muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Skipulagsstofnun hefur
einnig bent á að Hvalárvirkjun muni hafa veruleg neikvæð áhrif á óbyggð víðerni. Hún bendir
enn fremur á að virkjunin muni hafa neikvæð áhrif á vatnafar, jarðmyndanir, vatnalíf,
menningarminjar og landslag á svæðinu.

Framkvæmdirnar skerða stærstu, samfelldu óbyggðu víðernin á Vestfjörðum. Ósnortnum
víðernum fer fækkandi á Íslandi og ríkari áhersla ætti að vera lögð á verndun þeirra.
Í rammaáætlun er Hvalá í nýtingarflokki og er þar gert ráð fyrir 35 MW virkjun, en sú virkjun
sem stendur til að reisa er hins vegar 55MW. Skipan virkjunarkosts í nýtingarflokk fylgir ekki
skylda til að virkja og ekki þarf að framleiða meira rafmagn á Íslandi heldur dreifa því betur.
Brýnt er að tryggja íbúum á Vestfjörðum aðgang að þriggja fasa rafmagni með uppbyggingu
öflugs dreifikerfis en ekki með óþarfa virkjunarframkvæmdum.

Framkvæmdir eins og virkjun Hvalár eru óafturkræfar. Það er skylda okkar að hugsa vel um
náttúruna og landið okkar og skila því áfram til komandi kynslóða. Óröskuð víðerni sem þessi
eru alltof mikilvæg til að þeim megi fórna á grundvelli óljósra hagsmuna.
Stöðvum virkjun Hvalár áður en það er of seint!

Nei við hvalveiðum!

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Hafnarfirði 1.-2. september 2018, setur sig alfarið
á móti hvalveiðum Íslendinga. Hvalveiðar á Íslandsmiðum eru óþarfar og skila litlu til
þjóðarbúsins. Afurðirnar nýtast illa og erfitt er að deyða hvali á hátt sem talist getur
mannúðlegur. Alþjóðleg dýra- og umhverfisverndarsamtök hafa sett sig á móti veiðunum
vegna áhrifa þeirra á hvalastofna.

Ung vinstri græn telja nýlega lofræðu Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingkonu Vinstri grænna,
um hvalveiðar til skammar. Þar talar hún gegn samþykktum flokksins á móti hvalveiðum. Sem
fulltrúi umhverfisverndarflokks á þingi eru slík ummæli ekki forsvaranleg.

Velferðarþjónusta í öllum sveitarfélögum

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Hafnarfirði 1.-2. september 2018, krefst þess að
öll sveitafélög sinni lögbundinni skyldu sinni til þess að veita velferðarþjónustu til íbúa sinna.
Sveitarfélög eiga m.a. að bjóða upp á ákveðinn fjölda félagslegra íbúða, úrræði fyrir
heimilislausa og þjónustu fyrir fatlað fólk. Þeirri þjónustu hefur verið ábótavant t.a.m. á
Seltjarnarnesi og í Garðabæ, sem eru með ríkustu sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þar
er verið að brjóta á rétti fólks til þess að fá þessa lögbundnu þjónustu í sínu sveitarfélagi,
ásamt því að sveitarfélög sem fá hvað mestar útsvarstekjur nýta lækkaðan kostnað vegna
skorts á þjónustu til þess að niðurgreiða útsvar til tekjuhárra.
Ljóst er að ríkisstjórnin þarf að grípa til lagasetninga til þess að krefja sveitarfélög um að sinna
lágmarks velferðarþjónustu. Einnig væri hægt að skoða sameiningu velferðarþjónustu á milli
sveitarfélaga.

Það er ólíðandi að núverandi kerfi skerði velferðarþjónustu til þeirra sem þurfa á því að halda
til þess eins að lækka skattgreiðslur tekjuhárra.

Í þágu friðar

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Hafnarfirði 1.-2. september 2018, skorar á
Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann þjóðaröryggisráðs Íslands, að beita sér
fyrir endurskoðun þjóðaröryggisstefnu Íslands með friðarmál í forgrunni. Öryggi Íslands á ekki
að snúast um að viðhalda heimsmyndinni eins og hún er með drottnun vesturlanda,
hernaðarlegum íhlutunum þeirra um heim allan og vopnakapphlaupi. Ung vinstri græn vilja
segja upp varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna sem þjónar eingöngu hagsmunum
Bandaríkjanna. Bandaríkjaher á ekki að vera með útibú á Keflavíkurflugvelli fyrir hergögn sín
og heræfingar sem eru dulbúin sem partur af öryggi Íslands.

Einnig skora Ung vinstri græn á Katrínu Jakobsdóttur og þjóðaröryggisráð að vinna að úrsögn
Íslands úr Atlandshafsbandalaginu (NATÓ). Ísland á ekki að vera partur af hernaðarbandalagi
sem stuðlar að óstöðugleika heimsins og morðum á almennum borgurum. Vera Íslands í NATÓ
kristallast m.a. í því að Ísland studdi sjálfkrafa árás Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands á
Sýrland í apríl síðastliðnum og skrifaði ekki undir samning Sameinuðu þjóðanna um bann við
kjarnorkuvopnum sumarið 2017. Þingmenn Vinstri grænna hafa þó nýverið lagt til aðild að
þeim samningi. Ung vinstri græn fagna því og vonast til þess að það verði að veruleika. Annað
fagnaðarefni er að Vinstri græn hófu endurskoðun á reglugerð um flutning hergagna fyrr á
árinu, enda óforsvaranlegt að flutningur herganga sé leyfður um íslenska land- og lofthelgi.
Þrátt fyrir andstöðu Ungra vinstri grænna við aðild Íslands að NATÓ má gleðjast yfir því að
Katrín Jakobsdóttir hafi nýtt veru sína á ríkisoddvitafundi NATÓ í júlí síðastliðnum til þess að
ræða friðsamlegar lausnir, afvopnunarmál, loftslags- og jafnréttismál.

Ísland úr NATÓ og herinn burt!

Kjarasamningar í þágu láglauna- og kvennastétta
Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Hafnarfirði 1.-2. september 2018, lýsir yfir
miklum áhyggjum vegna yfirvofandi kjarabaráttu. Yfir 120 kjarasamningar renna út á næstu 7
mánuðum en Ung vinstri græn telja nauðsynlegt að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til þess að
samningar náist og tryggi þannig stöðugleika á vinnumarkaði. Ung vinstri græn fagna því
samtali sem átt hefur sér stað milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á undanförnum
mánuðum fyrir tilstilli forsætisráðherra.

Ólgu á vinnumarkaði má m.a. rekja til launamunar og tvískiptingar auðs sem skapast hefur á
síðustu árum. Hátekjustéttir, m.a á vegum ríkisins, hafa fengið verulegar launahækkanir á
síðustu árum á meðan þær lægst launuðu hafa setið eftir. Til þess að koma til móts við
óánægju launafólks og liðka fyrir kjarasamningum er nauðsynlegt að stjórnvöld ráðist í
aðgerðir sem tryggi jafnari ráðstöfunartekjur. Mikilvægt er að hefja strax endurskoðun á
tekjuskattskerfinu, nýta það betur til tekjujöfnunar og koma í veg fyrir frekari ójöfnuð.

Ung vinstri græn telja að við gerð kjarasamninga þurfi kerfisbundið að hækka laun
kvennastétta sem þátt í því að leiðrétta kynbundinn launamun. Margar kvennastéttir hafa
setið eftir í launum burtséð frá ábyrgð og vinnuálagi, t.a.m. í umönnunarstörfum. Það er ekki
hlutverk láglauna- og kvennastétta að sætta sig við núverandi ástand til þess að viðhalda
stöðugleika á vinnumarkaði í því góða efnahagslega árferði sem nú ríkir.
Verkfallsrétturinn er gríðarlega mikilvægt verkfæri hinna vinnandi stétta til þess að krefjast
betri kjara. Ung vinstri græn lýsa yfir ánægju sinni að ríkisstjórnin hafi ekki orðið undan
þrýstingi og sett lög á verkföll hingað til, og hvetur landsfundur stjórnvöld til þess að grípa ekki
til lagasetninga í komandi baráttu verði verkfallsrétturinn nýttur.
Landsfundur hvetur ráðherra Vinstri grænna í ríkisstjórn að nýta forréttindastöðu sína og völd
til þess að skapa pólitískan þrýsting í þágu láglauna- og kvennastétta.

Breytt neyslumynstur í þágu náttúru og mannréttinda

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Hafnarfirði 1.-2. september 2018, telur að
ríkisstjórn Íslands ætti að leggja sitt af mörkum til þess að styðja við fyrirtæki og verslun sem
að byggja á endurnýtingu, viðgerðum og ábyrgri framleiðslu, og þannig sporna gegn
neyslumynstri þar sem hlutum er hent í stað þess að gert sé við þá eða þeir notaðir aftur.
Raunverulegur kostnaður neysluvara kemur ekki fram í verði. Neysluvarningur er oft á tíðum
framleiddur á vafasaman hátt með tilliti til umhverfisáhrifa sem og velferð þeirra sem komu
að framleiðslu varningsins. Oft er verið að misnýta vinnuafl og auðlindir, þannig er hluti af
kostnaði þessarar neyslu taumlaus mannréttindabrot og óafturkræfur skaði á náttúru. Hið
kapítalíska hagkerfi tekur aðeins tillit til sölu og gróða, en ekki varðveislu náttúru og auðlinda
fyrir komandi kynslóðir eða mannréttinda.

Til þess að breyta þessu neyslumynstri verður endurnýting og vörur framleiddar í ábyrgri
framleiðslu að vera aðgengilegar almenningi og einnig aðlaðandi og hagkvæmur kostur. Þar
gæti ríkið komið inn í. Ríkisstjórnin ætti að leggja sitt á vogarskálarnar og styðja við iðnað sem
stuðlar að sjálfbærri neyslu í stað einnota neyslumynsturs, t.d. iðnað sem hefur það markmið
að gera við og deila neysluvörum í stað þess að selja nýjar. Einnig er nauðsynlegt að lækka
álögur á umhverfisvænar og mannréttindavottaðar vörur.
Við hvetjum þingmenn Vinstri grænna til þess að leggja fram og þrýsta á lagabreytingar þess
efnis. Róttækra lagabreytinga er þörf til þess að taka á neyslu sem er komin langt fram úr því
sem plánetan þolir.

Ung vinstri græn skora á forseta Alþingis

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Hafnarfirði 1.-2. september 2018, telur ólíðandi
að Piu Kjærsgaard hafi verið boðið að flytja ávarp á hátíðarfundi vegna 100 ára afmælis
íslenska fullveldisins, í ljósi andstöðu hennar gegn fjölmenningu og fordóma í garð
innflytjenda. Landsfundur Ungra vinstri grænna skorar því á forseta Alþingis, Steingrím J.
Sigfússon, að gera betur og bjóða fordómalausri píu að taka þátt í hátíðarhöldum 1. desember
næstkomandi.

Gerum styttingu vinnuvikunnar að veruleika

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Hafnarfirði 1.-2. september 2018, fagnar
tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuviku og hvetja til þess að stytting
vinnuvikunnar verði leidd í lög á Íslandi.

Stefna ætti að því að stytta vinnuvikuna niður í 30 tíma í skrefum. Ung vinstri græn hvetja
þingmenn Vinstri grænna til þess að styðja allar aðgerðir sem stefna að því takmarki, þ.á.m.
lagafrumvarp sem nú liggur fyrir þinginu. Sýnt hefur verið fram á að stytting vinnuvikunnar
leiði til aukinna lífsgæða, betri framleiðni og færri veikindadaga. Styttri vinnuvika gagnast
sérstaklega fjölskyldufólki með lágar tekjur, sem þyrftu þá að vinna minna til þess að ná
endum saman.

Lífsgæðaaukning í kjölfar styttingu vinnuviku gæti einnig leitt til þess að færri brenni út í starfi,
verði óvinnufær og þurfi á velferðarþjónustu að halda.

Stytting vinnuvikunnar getur einnig ýtt undir kynjajafnrétti hvað varðar vinnu innan sem utan
heimilis, þar sem algengara er að konur séu í hlutastarfi en karlar og sinni heimili meðfram
vinnu. Það að stytta vinnuvikuna eykur líkur á að konur og karlar vinni jafnlanga vinnuviku og
að heimilisstörf og umönnun barna á heimilum gagnkynja para verði þá með jafnara móti.
Með styttingu vinnuviku sýnum við að við erum samfélag sem hugar að lífsgæðum, ánægju
og eflingu fjölskyldutengsla fram yfir peninga og þann ímyndaða hag sem atvinnurekendur
telja sig hafa af því að halda vinnuviku sem lengstri.