Landsfundarályktanir 2015

By 21. September, 2015 Ályktanir

Hversu teygjanlegt getur eitt hugtak orðið?

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík 19. – 20. september 2015, lýsir yfir ánægju sinni með að loksins taki ráðamenn sönsum og byrji að veita peningum til fjársvelts Landspítalans eftir niðurskurð allt of margra ára. En betur má ef duga skal. 1,6 milljarður aukalega á fjárlögum til heilbrigðismála án tillits til launakostnaðar hrekkur skammt þegar litið er til þess ástands sem hefur ríkt á LSH undanfarin misseri. Ung vinstri græn minna á ítrekaðar yfirlýsingar formanns fjárlaganefndar fyrir síðustu þingkosningar um að það væri bráðnauðsynlegt forgangsmál Framsóknar að veita strax 12 – 13 milljörðum í rekstur spítalans.

Kjörtímabilið er nú rúmlega hálfnað og enn líður og bíður. Hversu teygjanlegt getur eitt hugtak orðið? Ung vinstri græn krefjast þess að ráðamenn standi við kosningaloforð sín og tryggi heilbrigðiskerfinu það fjármagn sem það þarf til að dafna á nýjan leik.

 

Amen

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík 19. – 20. september 2015, telur óásættanlegt að samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verði framlög til Þjóðkirkjunnar aukin um 409,7 milljónir króna á milli ára. Ung vinstri græn telja að þau framlög sem kirkjan hefur fengið undanfarin ár, í kringum 5 milljarða króna ár hvert, séu nú þegar allt of há. Telur hreyfingin að þessum fjármunum eigi að ráðstafa með öðrum hætti.

Áréttar fundurinn jafnframt þá skoðun hreyfingarinnar að heimsóknir leik- og grunnskólabarna í kirkjur séu tímaskekkja. Slíkar heimsóknir eru í eðli sínu trúarinnræting enda hampa þær einu trúfélagi og sjónarmiðum þess umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Telja Ung vinstri græn að fyrirkomulagið ýti undir félagslegan aðskilnað og ójöfnuð milli barna í Þjóðkirkjunni annars vegar og barna í öðrum trúfélögum eða utan þeirra hins vegar. Ung vinstri græn vilja að fræðsla um trúarbrögð fari fram á sem hlutlausustum grundvelli þar sem jafnræðis er gætt í umfjöllun um hin ólíku trúarbrögð og að henni eigi að vera sinnt af kennurum.

Hreyfingin fagnar því að 125. grein almennra hegningarlaga um guðlast hafi verið afnumin með jafnvíðtækum stuðningi á Alþingi og raun bar vitni. Afnám ákvæðisins hefur verið meðal helstu baráttumála Ungra vinstri grænna frá stofnun hreyfingarinnar. Telur fundurinn að um stórt og löngu tímabært skref í baráttunni fyrir tjáningar- og trúfrelsi hérlendis sé að ræða.

Ung vinstri græn ítreka þó fyrri afstöðu sína gagnvart Þjóðkirkjunni en hreyfingin hefur lengi barist fyrir fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Ung vinstri græn telja sjálfsagt að allir fái að iðka trú sína enda eru það mannréttindi. Það þýðir hins vegar ekki að ríkið eigi að styðja Þjóðkirkjuna fremur en önnur trúfélög.

 

Af einkavæðingu Landsbanka

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík 19. – 20. september 2015, leggst eindregið gegn tillögu fjármálaráðherra um að selja hluta ríkisins í Landsbankanum og lýsir sig andvígan frekari einkavæðingu á bankanum.

Ung vinstri græn telja mikilvægt að á Íslandi verði banki sem gæti almannahagsmuna og hafi ekki einungis það markmið að græða. Hreyfingin tekur vel í þá hugmynd að gera Landsbankann að samfélagsbanka. Ung vinstri græn vilja minna fjármálaráðherra á að samkvæmt könnun sem var gerð í mars á þessu ári er meirihluti landsmanna andvígur einkavæðingu Landsbankans og skorar hreyfingin á hann að hlusta á fólkið í landinu.

Að endingu skora Ung vinstri græn á fjármálaráðherra að endurtaka ekki mistök forvera sinna með frekari einkavæðingu innan bankakerfisins.

 

Mennt er máttur

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík 19. – 20. september 2015, lýsir sig forviða á menntastefnu stjórnvalda.

Sú ákvörðun að loka fyrir framhaldsskólanám einstaklinga 25 ára og eldri er með öllu óskiljanleg. Á sama tíma er framhaldsskólunum síðan gert að koma námi sínu fyrir á þremur árum hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Fólk sem hefur verið á vinnumarkaði á ekki afturkræft í nám og um þúsund manns verður vísað úr námi. Afleiðingarnar eru gífurlega alvarlegar. Draga mun verulega úr námsframboði, fjölbreytileika í námi og menntunarstig þjóðarinnar lækka svo um munar.

Allt ber þetta að sama brunni: Koma á fólki eins hratt út á vinnumarkað og hægt er. Ung vinstri græn minna á að menntun hefur gildi í sjálfu sér en ekki aðeins sem hjálparhjól atvinnulífsins. Rétturinn til menntunar er einn af hornsteinum velferðarsamfélagsins. Vonar fundurinn að menntamálaráðherra takist ekki að fjarlægja hann endanlega áður en kjörtímabili hans lýkur.

 

Hvatning til Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík 19. – 20. september 2015, hvetur Vinstrihreyfinguna – grænt framboð að taka róttæk skref til vinstri á landsfundi sínum í október.

Samfélagið breytist sífellt örar og það gerir kröfu til þess að stjórnmálaflokkar haldi í við sig. Á tímum þar sem misskipting í heiminum vex örar en nokkru sinni fyrr, krafan um réttlæti til handa konum ómar sífellt hærra, mannkynið er hársbreidd frá því að ganga frá jörðinni og heimsfriðurinn hangir á bláþræði á hreyfing sem berst fyrir jöfnuði, kvenfrelsi, umhverfisvernd og friði gífurlegt erindi við samfélagið. Hafi einhvern tímann verið eftirspurn eftir róttækum tillögum í þessum málaflokkum er það nú.

Því kalli verða Vinstri græn að svara. Við höfum engu að tapa nema hlekkjunum. Nema ef til vill olíupeningum.

 

Af flóttafólki og hælisleitendum

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík 19. – 20. september 2015, fagnar viljayfirlýsingum yfir tuttugu sveitafélaga um að taka við fleira flóttafólki. Skorar fundurinn jafnframt á stjórnvöld að láta verkin tala í þessum efnum.

Ung vinstri græn ítreka hins vegar þá skoðun hreyfingarinnar að Útlendingastofnun sé ekki fær um að takast á við málefni flóttafólks og hælisleitenda. Ljóst er að á Útlendingastofnun ríkir mikil tortryggni í garð skjólstæðinganna sem fá sjaldnast að njóta vafans þegar umsóknir þeirra eru metnar. Þessi tortryggni á sér djúpar rætur og hefur loðað við þennan málaflokk í hvert skipti sem á íslensk stjórnvöld hefur reynt.

Það er enn fremur siðferðislega rangt að skýla sér á bak við Dyflinnar-sáttmálann og síst fallið til þess að bæta vandann hnattrænt. Enn býr fjöldi fólks við einangrun, stöðugan ótta við tafarlausan brottflutning, óhóflegar tafir á úrvinnslu umsókna og algeng og óþarfa brot á þeirri slöku reglugerð sem unnið er eftir við meðhöndlun umsókna. Engin manneskja á að þurfa að búa við þær aðstæður sem íslenska ríkið hefur hingað til sett flóttafólk í.

Þegar kemur að málefnum hælisleitenda dugar ekki að „sýna pínu mannúð“. Það dugar heldur ekki að skýla sér á bak við núgildandi útlendingalög þar sem þau veita nú þegar sveigjanleika til að taka við hælisleitendum.

Það þarf rótttæka hugarfarsbreytingu í samfélaginu og þá ekki síst í stjórnsýslu íslenska ríkisins til að taka á málum hælisleitenda með viðunandi hætti. Útlendingastofnun er eindregið hvött til að kynna sér 21. aldar hugmyndir um mannréttindi og hefja vinnu við að innleiða þær í málsmeðferðir sínar. Það á ekki að þurfa að hlaupa í veg fyrir flugvél til að hælisleitendur fái sanngjarna meðferð.

Nauðsynlegt er að Ísland axli ábyrgð á forréttindastöðu sinni í alþjóðasamfélaginu og geri það sem í valdi þess stendur til að deila auðlegð sinni með þeim sem mest þurfa á að halda. Við megum ekki líta undan.

 

Takk

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík 19. – 20. september 2015, þakkar innilega öllum þeim hugrökku konum sem lagt hafa sögur sínar og reynslu á vogarskálarnar í von um réttlátara samfélag undanfarin misseri.

Samfélagsmiðla- og brjóstabyltingar undanfarins árs sýna svo ekki verður um villst að krafan um kvenfrelsi verður sífellt háværari. Femínisminn gengur í gegnum endurnýjun lífdaga. Fjórða bylgjan hefur hafið innreið sína fyrir alvöru.

Feðraveldið leitar sífellt nýrra leiða til að viðhalda sér og úr sér gengnum gildum sínum. Samfélagið er gegnsýrt af tvöföldu siðgæði þar sem konur eru hlutgerðar frá barnsaldri og alið á skömm gagnvart líkömum þeirra á sama tíma.

Það er með þessu hugrekki og samstöðu sem við verðum einn daginn fær um að stöðva klámvæðingu, kynferðisofbeldi og kvennakúgun feðraveldisins í öllum sínum myndum. Með því að neita að láta skilgreina sig og skammast sín fyrir líkama sína eða það ofbeldi sem þær eru beittar slá konur vopnin úr höndum kúgara sinna. Aðeins þannig munum við einn daginn ná markmiði okkar um jafnan hlut kynjanna.

Áfram konur! Fokk feðraveldið! Lifi byltingin!

 

Ég hef svo miklar áhyggjur af honum Jóni Gunnarssyni

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík 19. – 20. september 2015, telur ljóst að hægristjórnin sé með öllu vanhæf til að fara með stjórn umhverfismála í landinu.

Þrátt fyrir samþykktir þingsins um friðlýsingar hefur ekkert gengið að friðlýsa svæði allt kjörtímabilið vegna niðurskurðarstefnu hennar, á sama tíma og forsætisráðherra gengur um og friðar mannvirki út um hvippinn og hvappinn eftir geðþótta. Hið helga markmið auðvaldsstefnunnar um að draga úr samrekstrinum kemur meira að segja í veg fyrir að framkvæmdavaldið sé fært um að framfylgja nýlegum samþykktum löggjafans. Aðför hægristjórnarinnar að Rammáætlun er án nokkurs vafa einn versti farsi sem settur hefur verið á svið í þingsal. Engin fagleg rök lágu að baki svokölluðum breytingartillögum atvinnuveganefndar um fimm nýja virkjunarkosti eftir að hún hafði rænt málinu af umhverfis- og samgöngunefnd.

Sem betur fer tókst hægrinu ekki að fórna náttúru landsins enn frekar á altari hugmyndaleysis síns í atvinnumálum og ganga frá Rammaáætlun í eitt skipti fyrir öll. Ung vinstri græn þakka þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fyrir að hafa staðið í lappirnar gegn lúalegum árásum ríkisstjórnarinnar og formanns atvinnuveganefndar á Rammaáætlun. Gott er að vita til þess að stjórnarandstaðan standi vaktina þegar á reynir.

Að lokum hvetja Ung vinstri græn ríkisstjórnina til að koma á laggirnar umhverfisráðuneyti, -stofnun, -nefnd og jafnvel -ráðherra sem eru ekki bara til sýnis.

 

Niður með Gunnar Braga

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík 19. – 20. september 2015, fordæmir störf Gunnars Braga Sveinssonar sem utanríkisráðherra.

Þó hreyfingin styðji ekki aðild Íslands að Evrópusambandinu telur hún einhliða ákvörðun ráðherra um að hætta við aðildarumsókn í vetur án þess að spyrja kóng né prest ólýðræðislega. Samkvæmt þingskaparlögum er utanríkisráðherra skylt að hafa samráð við utanríkismálanefnd þingsins um meiri háttar stefnubreytingar í utanríkisstefnu landsins en ráðherra lét ekki svo lítið að fylgja lögum í málinu. Ljóst var að ríkisstjórnin myndi aldrei efna síendurtekin loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu en að ganga með svo freklegum hætti framhjá gildandi þingsályktun er óboðlegt í svokölluðu lýðræðissamfélagi.

Ákvörðun utanríkisráðherra um þátttöku Íslands í hernaðarbandalagi Norðurlanda með sama verklagi er jafnframt svívirðileg. Ung vinstri græn hafna alfarið aðild Íslands að hernaðarbandalögum. Svokallaða „borgarlega“ þátttöku í slíkum bandalögum er ekki hægt að aðskilja frá hernaðarlegri.

Enn fremur mótmæla Ung vinstri græn því harðlega að utanríkisráðherra lýsi því yfir við bandarísk yfirvöld að áhugi sé á því að „efla varnarsamstarf“ við heimsveldið án þess að fá umboð til slíks frá Alþingi. Ljóst er af fréttum að til stendur að hervæða landið á nýjan leik. Þó svo að ráðherra segist ekki hafa frumkvæði að endurkomu Bandaríkjahers til landsins hafa hugmyndir þess efnis verið ræddar við ráðuneytið og nú stendur til að auka hlutdeild „varnarmála“ á fjárlögum um rúmlega 200 milljónir til að auka loftrýmisgæslu og að fjölga starfsfólki hjá NATÓ. Hreyfingin beinir því til utanríkisráðherra að kalda stríðinu sé lokið fyrir allnokkru síðan. Nýtt vígbúnaðarkapphlaup, sem stjórnvöld virðast í fortíðarþrá sinni vera að espast upp í, er ekki til þess fallið að halda því áfram þannig.

Ung vinstri græn vona að ekki sé til of mikils ætlast að utanríkisráðherra hátti starfi sínu með hliðsjón af því að hann sé ráðamaður í lýðræðisríki. Sé honum það um megn er ljóst að honum er ekki sætt á stóli.

 

Höfnum hernaði

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík 19. – 20. september 2015, harmar stuðningsyfirlýsingu íslenskra stjórnvalda við hernaðaraðgerðir gegn hinu svokallaða Íslamska ríki.

Svo virðist sem stjórnarflokkunum sé gjörsamlega frámunað að læra nokkurn skapaðan hlut af reynslunni. Ekki er nóg með það að í annað sinn á rúmum áratug lýsi hægriflokkarnir yfir stuðningi þjóðarinnar að henni óforspurðri við stríðsbrölt Vesturvelda heldur vilja þeir varpa sprengjum yfir sama landsvæði til höfuðs samtökum hverra uppgang má beinlínis rekja til afskipta hinna „viljugu“ þjóða á svæðinu og sér í lagi innrásarinnar í Írak.

Ung vinstri græn ítreka að löngu sé kominn tími til að Atlantshafsbandalagsríkin átti sig á því að íhlutunarstefna þeirra kveikir fleiri elda en hún slekkur. Stuðningur NATÓ við nýlegar árásir Tyrkja á Kúrda hljóta að duga til að vekja með stjórnvöldum grun um að einhvers staðar sé maðkur í mysunni. Sé ríkisstjórnin þó svo sannfærð um réttmæti arfgengs sprengjublætis stjórnarflokkanna hlýtur hún að minnsta kosti að þora að taka umræðuna við bæði þing og þjóð. Ung vinstri græn árétta enn einu sinni þá kröfu hreyfingarinnar að Ísland segi sig úr NATÓ.

Ísland er herlaust land og á að taka fortakslausa afstöðu með friði á alþjóðavísu en ekki hlaupa undir bagga með undirmálsstríðum heimsvaldasinna. Ung vinstri græn hafna hernaði í öllum sínum myndum.

 

Þessi ferlegi Dagur

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík 19. – 20. september 2015, lýsir yfir djúpstæðum vonbrigðum sínum með þá tillögu borgarstjóra að samþykkt borgarstjórnar um sniðgöngu á ísraelskum varningi verði dregin til baka.

Ung vinstri græn telja að borgarstjórn Reykjavíkur hafi stigið stórt skref í mannréttindamálum með því að samþykkja tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur. Þjóðarmorð Ísraelsríkis á Palestínumönnum verður ekki stöðvað með aðgerðaleysi. Til þess að það taki enda verður alþjóðasamfélagið að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni í verki. Um er að ræða friðsamlega aðgerð, öfugt við hernaðaraðgerðir þær sem henni er beint gegn. Telur hreyfingin að slíkar aðgerðir séu eina rétta svarið við hernaðarbrölti stórvelda heimsins. Með því að versla ekki við ísraelsk fyrirtæki þangað til Palestína verður frjáls skapar alþjóðasamfélagið þrýsting á yfirvöld þarlendis um að láta af framferði sínu. Samþykkt borgarstjórnar er ekki endanleg útfærsla og vel er hægt að gera við hana breytingatillögur eftir á.

Ung vinstri græn gagnrýna kjarkleysi borgarstjóra í þessu máli. Viðbrögðin við samþykktinni voru fullkomlega viðbúin og mátti öllum vera ljóst að Ísraelsríki og stuðningsmenn þess tækju henni ekki þegjandi og hljóðalaust. Ung vinstri græn skora á borgarfulltrúa að standa með sjálfum sér og palestínsku þjóðinni. Frjáls Palestína!