Kynslóðin sem situr eftir

By 17. October, 2016 Uncategorized

Kynslóðin sem situr eftir

 

Una Hildardóttir 3.sæti Suðvesturkjördæmi

Una Hildardóttir 3.sæti Suðvesturkjördæmi

Nýlega kynnti fjármálaráðherra úrræði sem eiga að aðstoða ungt fólk við kaup á fyrstu fasteign með óverðtryggðu láni. Tillagan felst í því að hægt sé að nota sérseignasparnað sem hluta af afborgun svo þær séu í takti við verðtryggð lán, eða sem sparnaðarleið til þess að eiga fyrir fyrstu útborgun. Ef farið væri þessa leið gefur forsætisráðuneytið upp þær forsendur að par með 800 þúsund krónur í mánaðartekjur fái 48 þúsund króna framlag og einstaklingur með 500 þúsund krónur 30 þúsund króna framlag með því að nýta séreignasparnaðinn. Staðreyndin er hins vegar sú að fáir á aldrinum 20-29 ára búa við þau kjör.

Jafvel þótt við eigum fyrir fyrstu útborgun erum við unga fólkið að taka verstu lánin. Okkur er boðið að taka 40 ára jafngreiðslulán, eða svokölluð Íslandslán. Greiðsluferli þeirra veldur hættu á yfirveðsetningu á fyrri hluta lánstímans og er heildarvaxtarkostnaður þeirra hærri en á öðrum styttri lánum. Jafnvel þótt fjármálaráðherra segi að jafngreiðslulán verði óheimil með nýrri lagasetningu verða þau enn í boði fyrir tekjulægsta hópinn og undanþága gefin til fólks yngra en 40 ára.

Í dag er enginn raunverulegur valkostur í boði fyrir mig á húsnæðismarkaði. Ég vil búa áfram í mínu sveitafélagi en þar er leiguverð of hátt og ég get ekki tekið lán. Við þurfum að tryggja ungu fólki örugga húsnæðikosti, óhað því hvar það vill búa. Hlutfall ungs fólks á aldrinum 20-29 ára sem býr enn í heimahúsum fer sífellt hækkandi og er nú í kringum 40%. Við í VG viljum breyta því. Við ætlum að tvöfalda stofnframlög til uppbyggingar leiguhúsnæðis og hækka húsnæðisbætur. Með því að tryggja betri lán fyrir tekjulægsta hópinn getum við sömuleiðis séð til þess að þeir sem vilji eignast eigið húsnæði eigi þess kost. Markmið okkar er að húsnæðiskostnaður heimila fari ekki yfir fjórðung af ráðstöfunartekjum.


Una Hildardóttir 3.sæti Suðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst í Kvennablaðinu