Hagnýtt nám

By 13. October, 2016 Uncategorized

HAGNÝTT NÁM

Er núverandi námskrá liður í kúgun alþýðunnar?

14694822_1379041965441047_464789087_n-1

Sara Mansour

Ég er þeirrar skoðunar að núverandi námskrá íslenskra skóla sé afar gölluð vegna þess að henni mistekst að uppfylla raunverulegt markmið skólagöngu; að byggja upp sjálfsörugga, upplýsta, auðmjúka, víðsýna og sjálfstætt þenkjandi unga einstaklinga, tilbúna að taka þátt í samfélaginu og á endanum að taka við því.

 

Grunnskólar landsins vinna samræmt út frá einni námskrá, aðalnámskrá grunnskólanna. Það á sömuleiðis við um leiksskólana og framhaldsskólana. Í leiksskólum lærum við t.d. að skrifa nafnið okkar, umgengni við jafnaldra, listræna tjáningu og borðsiði. Persónulega breyttist veröldin daginn sem við lærðum að brjóta saman sokka í kúlur. Flestir framhaldsskólar bjóða uppá valfög sem flokkast undir praktískt nám – en það er of seint að byrja að byggja upp lífskunnáttu í kringum átjánda árið. Af hverju líða þessi tíu ár þarna á milli og hvers erum við að fara á mis við?

 

Of oft heyri ég unglinga grínast með að þau séu „enn að bíða eftir að algebruformúlurnar gagnist þeim í daglegu lífi“ eða að þau „kunni að finna rót danskra sagnorða en ekki að borga skatta“. En það að kunna ekki að borga skatta er bara alls ekkert grín (eins og Tortóla hefur kennt okkur). Þýðir það að stærðfræði og danska séu minna mikilvæg fyrir vikið? Nei, auðvitað ekki. Gott jafnvægi milli almennra fræða og praktískrar þekkingar eru lykilinn að velgengni í lífinu. Það er ekkert skrítið að fjöldi íslenskra ungmenna eigi svona erfitt með að fóta sig í lífinu þegar helming námsins hreinlega vantar. Sumir myndu segja að það væri hlutverk foreldra að kenna börnum sínum að borga skatta, ekki skólakerfisins. Þátttaka foreldra í lífi barns, þ.á.m. námi þess, er nauðsynlegur þáttur uppeldis, sbr. hugmyndir VG um styttingu vinnuvikunnar. En það eru ekki allir sem geta leitað til foreldra sinna þegar kemur að slíku og það er trú Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að lífsgæði barna eigi ekki að miðast út frá efnahag, stéttarstöðu eða félagslegum bakgrunni. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og íslensk landslög eiga að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til menntunar.

 

Hvað er hagnýtt nám? Praktískt nám eru öll fræði sem stefna að því að undirbúa einstakling fyrir skynsamt og innihaldsríkt líf. Dæmi um hagnýtt nám eru fjármálalæsi, kynjafræði, táknmál, stjórnmála/lýðræðisfræði, fjölmiðlalæsi, hlutlaus trúarbragðafræði, fræðsla um mannréttindi, jafnréttis- og hinsegin fræðsla auk fræðslu um aðra utangarðs- eða minnihlutahópa. Þetta hljómar kannski eins og löng upptalning sem aldrei kæmist fyrir á stundaskránni, hvað þá að til sé mannafli sem geti kennt öll þessi fög. En raunveruleikinn er sá að það er algjör undantekning ef lífsleiknitímar eru nýttir á tilætlaðan máta. Eftir að hafa rætt við aðila úr meira en tugi mismunandi skólum á höfuðborgarsvæðinu, leyfi ég mér jafnvel að segja að þeir séu ranglega nýttir. Krakkarnir sem ég ráðfærði mig við, báru vitni um að lífsleiknitímarnir þeirra væru nýttir í að spila vist, horfa á Friends eða í versta falli vinna upp efni sem átti að taka fyrir í öðrum tímum. Hvað varðar færni kennara til þess að kenna ákveðin fög, t.d. hinseginfræði eða fjölmiðlalæsi, þá eru nóg af samtökum og háskólanemum sem sérhæfa sig í þeim og myndu með glöðu geði sinna kennslunni ef um það væri samið. Jafnframt eiga nemendur rétt á bestu fáanlegu fræðimönnunum til þess að miðla þekkingu frá sínu sérsviði.

 

Í stefnuskrá Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur skýrt fram að lýðræðisleg þátttaka nemenda í skólastarfi skuli vera tryggð og þeir upplýstir um réttindi sín og skyldur. Ég á erfitt með að ímynda mér að nokkur Íslendingur myndi mótmæla því að 80 mínútur á viku í hagnýtt nám sé ekki sóun á verðmætum tíma. Ég sé heldur ekki fyrir mér að nokkur myndi setja sig á móti fræðslu um námslán, líkamlegar fatlanir og geðraskanir, klámvæðingu, mismunandi trúarbrögð, húsnæðismál og önnur málefni líðandi stundar. Af hverju erum við þá enn á þeim stað að það sé ekki skylda? Hverjir hagnast á þekkingarleysi komandi kynslóðar? Þeir sömu og hagnast á því að fólk sé ekki upplýst um réttindi sín á atvinnumarkaðnum, sömu ríkisstjórnir og brjóta mannréttindi fólksins síns, sama fólkið og notar fjölmiðla til þess að móta skoðanir almennings, sömu flokkarnir og græða á því að við kjósum eins og foreldrar okkar því það viðheldur þeirra völdum.

 

Ég vil búa í landi þar sem það þykir ekki sérviska að vilja afla sér upplýsinga um hagfræði, alþjóðastjórnmál og réttindabaráttur minnihlutahópa. Það er von mín og ósk að stjórnarmenn landsins vilji búa börnum sínum sem best samfélag þar sem þau geta myndað eigin skoðanir og tekið þátt í eigin baráttum. Eiginhagsmunir fárra eru ekki nægileg ástæða til að deyfa áhuga okkar á mikilvægum málefnum. Einmitt núna er sennilega mest þörf á fjölmiðlalæsi (tileinkuð tækni sem aðgreinir æsifréttir frá áreiðanlegum heimildum og gerir okkur kleift að lesa á milli línanna), ef við lítum á stöðuna í heiminum. Allir eiga að geta fundið upplýsingar um það sem vekur áhuga þeirra og geta þróað þann áhuga svo þau geti lagt sitt af mörkum í þjóðfélaginu. Ungmenni landsins eru bæði gáfuð og efnileg. Það er hlutverk skólanna að ýta undir kunnáttu þeirra og hjálpa þeim að verða virkir þátttakendur í eigin lífi, sem og annarra.

-Sara Mansour