Frjálshyggjan og fíklarnir

By 13. March, 2015 Pistlar
[dt_teaser type=”uploaded_image” image_id=”1306″ target=”blank” lightbox=”” style=”1″ content_size=”big” background=”fancy”]Rakel G. Brandt
Aðalritari UVG
rakel@vinstri.is[/dt_teaser]

Þann 11. mars síðastliðinn skrifaði Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari, pistil um hvernig frjálshyggjan sjái fólk sem einstaklinga og beri mikla virðingu fyrir öllum óháð einkennum þeirra. Þar kemur fram einfalt úrræði við fíkn: að fíkillinn verði að takast á við sjúkdóm sinn og bera ábyrgð á eigin líferni til að ná fram breytingum. Það er vissulega eitthvað til í þessu en þó skortir sýn á heildarmyndina sem grundvallar lausnina. Það eitt og sér, að telja að kominn sé fullkominn skilningur – hvað þá lausn – á fíkn, eru stór orð sem fáir sérfræðingar létu hafa eftir sér. Fíkn hefur verið rannsökuð lengi og halda þær rannsóknir áfram í von um lausn við þeim gífurlega vanda sem hún er. Samkvæmt metaanalýsu fellur samt sem áður yfir helmingur alkóhólista sem sækja sér meðferð innan þriggja mánaða. (National Institute on Alcohol Abuse and Alcoholism. (2000a). Alcohol Alert: New Advances in Alcaholism Treatment.)

Margt er vitað um áfengisfíkn, meðal annars að hún sé arfgeng og herji fremur á fólk í lægri stéttum samfélagsins (Low SES). Meðferðarúrræðin, sem oftast heyra undir heilbrigðiskerfið, eru misaðgengileg einstaklingum í stéttskiptari samfélögum þar sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu er ójafnara og ræðst frekar af fjárhagsstöðu. Hvernig ætlar frjálshyggjan að hjálpa fíklum? Með því að segja þeim að bera ábyrgð á sér sjálfum þrátt fyrir að um sjúkdóm sé að ræða? Vissulega er það hluti vímuefnameðferðar að kenna sjúklingum að bera ábyrgð á sjálfum sér en það er langt frá því að vera öll meðferðin. Þeir þættir sem að hafa besta spágildið um hvort sjúklingur nái að halda sér edrú eru meðal annars stuðningsríkt og fjárhagslega stöðugt umhverfi.

Nú hef ég ekki myndað mér sterka skoðun á því hvort sölu áfengis ætti að leyfa í verslunum eða ekki. Ákvörðunin þar um ætti hins vegar að byggja á málefnalegri forsendum en ályktunum um hitt og þetta varðandi sjúkdóm sem helstu sérfræðingar hafa ekki fullan skilning á. Fremur ættum við að rýna betur í gögn og sjá hvað raunverulega hentar best. Áfengisneysla hefur fylgt samfélaginu í gegnum aldirnar og hægt er að tengja þúsundir dauða við alkóhólisma á einn hátt eða annan. Samt hefur sýnt sig að hófleg drykkja (1-2 drykkir á dag) hafi hugsanlega heilsubætandi áhrif. Reglan um hófsemi virðist eiga við neyslu áfengis líkt og flest annað.

Að lokum, varðandi það hvernig hin hræðilega „forræðishyggja“ hefur nú haft jákvæð áhrif. Meðal annars fækkaði dauðsföllum í umferðinni umtalsvert þegar yfirvöld færðu það í lög að notast skyldi við bílbelti. Auðvitað er fræðsla mikilvæg en stundum virðist það einfaldlega hafa sterkari áhrif að notast við boð og bönn. Það er frábært að það myndist gagnrýnin umræða um málefni líðandi stundar. En það væri heimskulegt að hafna svokölluðum „frelsissviptingum“ þó þær styðji við heilbrigðara, hamingjusamara og langlífara samfélag. Eins og Jón Steinar orðar það sjálfur, þá erum við grunneining samfélagsins.