0

Fjórða iðnbyltingin

By 24. September, 2019 Uncategorized

Ályktunin tengist níunda heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna.

Landsfundur Ungra vinstri grænna haldinn í Mosfellsdal helgina 14.-15. september harmar að vinna við uppbyggingu á flutnings- og dreifikerfi raforku fari hægt af stað. Öruggt aðgengi að þriggja fasa rafmagni er mikilvægur þáttur í eflingu atvinnulífs í dreifðum byggðum og sérstaklega þegar litið er til fjórðu iðnbyltingarinnar og þeirra breytinga sem hún mun hafa í för með sér. Hún mun óneitanlega hafa áhrif á atvinnulíf á Íslandi og munu mörg störf hverfa með tilkomu tækninýjunga á næstu árum. Stjórnvöld þurfa á sama tíma að hlúa að atvinnuuppbyggingu og ýta undir nýsköpunartækifæri fyrir ungt fólk á köldum svæðum.

 

Greinagerð með ályktun:

Með aukinni sjálfvirknivæðingu verða sum störf óþörf en jafnframt verða til ný störf. Niðurstöður nefndar forsætisráðherra  um fjórðu iðnbyltinguna sýna að á Íslandi eru miklar líkur á að um 28% íslensks vinnumarkaðar verði fyrir verulegum breytingum eða að störf hverfi alveg vegna sjálfvirknivæðingar. Einnig er því spáð að 14% starfa breytist lítið vegna nýrra tæknibreytinga og að 58% starfa taki talsverðum breytingum.

Til þess að fólk og þá sérstaklega ungt fólk í dreifðari byggðum geti nýtt sér þau tækifæri sem felast í fjórðu iðnbyltingunni þarf að tryggja aðgengi að raforku. Því er mikilvægt að stjórnvöld bregðist fljótt við og hefji tafarlaust uppbyggingu á flutnings- og dreifikerfum raforku um allt land.