Charlie Hebdo

By 13. January, 2015 Pistlar
Ragnar Auðun Árnason

Ragnar Auðun Árnason

Gríðarleg sorg ríkir í Frakklandi eftir að tólf manns voru skotin til bana í höfuðstöðvum Charlie Hebdo blaðsins í París. Charlie Hebdo blaðið er þekkt satirískt dagblað en ástæða árásarinnar eru skopmyndir sem það hefur birt af Múhameð spámanni.

Margar þjóðir hafa boðið Frökkum hjálp og syrgja nú með þeim. Þó að franska þjóðin sé í losti vegna voðaverkanna þá ríkir mikill samhugur. Það er mikilvægt á tímum sem þessum að leyfa ekki öfgum, hvort sem það eru þær öfgar sem lágu að baki voðaverkunum eða þær sem nýta sér þau til að koma málstað sínum á framfæri, að ná völdum. Marine Le Pen leiðtogi Þjóðfylkingarinnar (Front National) vill að Frakkar taki aftur upp dauðarefsingar en þær voru afnumdar 1981. Þessa umræðu verður að varast því dauðarefsingar eiga ekki að þekkjast í nútímasamfélagi. Múslimahatur er talsvert í Frakklandi og gríðarlega eldfimt umræðuefni en undirritaður býr við aðstæður þar sem múslimar eru almennt taldir hryðjuverkamenn. Þótt öfgamennirnir sem stóðu að árásunum á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo segist vinna í nafni Íslam þá er fásinna að setja samasemmerki milli þeirra og hins almenna múslima.

Við getum ekki leyft hryðjuverkum sem þessum að gjörbreyta samfélaginu okkar. Það er mikilvægt að leyfa öfgamönnunum ekki að vinna. Morð og ofbeldi eru aldrei lausnin en mannkynið ætlar víst aldrei að læra það að friði og náungakærleik er ekki náð fram með ofbeldi og morðum.

Ragnar Auðun Árnason er tengiliður UVG í Frakklandi.