Baráttan fyrir mannréttindum

By 30. June, 2016 Fréttir

Á dögunum lá leið Ungra vinstri grænna til Póllands. Okkur var boðið að taka þátt í Pride-göngunni í Varsjá með Evrópskum Græningjum (e. European Greens), fyrir tilstilli ungliða í pólska græningjaflokknum (sem að ber nafnið Ostra Zielen og er ungliðahreyfing flokksins Partia Zieloni). Við vorum þrjár úr stjórn UVG sem að þáðum boðið, ég, Snæfríður og Silja.

Ungliðar í pólska græningjaflokknum hafa svipaðar hugsjónir að leiðarljósi í sinni baráttu og UVG; umhverfisvernd, feminisma, alþjóðahyggju og friðarstefnu. Einnig eru réttindi hinsegin fólks stór partur af þeirra baráttu, þar sem að Pólland á langt í land hvað varðar réttindi LGBT+ fólks, og miklir fordómar og hatur gagnvart þessum hópum er ríkjandi.
Að fá að taka þátt í réttindabaráttu sem að er svo gríðarlega mikilvæg í því pólitíska og samfélagslega árferði sem að ríkir í Póllandi var mikil upplifun. Samstöðumátturinn var ótrúlegur, að allt þetta fólk væri samankomið til þess að berjast fyrir mannréttindum þrátt fyrir þá mótstöðu sem þessir hópar hafa mætt í samfélaginu.

Ásamt því að taka þátt í göngunni, fengum við gott tækifæri til þess að kynna okkur pólitík í Póllandi, og fengum góða mynd af þeim veruleika sem að ungt fólk í Póllandi býr við. Pólski græningjaflokkurinn hefur mjög lítið fylgi, líkt og aðrir vinstriflokkar í Póllandi. Hægri pólitík og þjóðernishyggja hafa verið ráðandi í stjórnmálum þar undanfarið, líkt og í mörgum öðrum Evrópuríkjum. Við vorum meðvitaðar um þá bylgju sem riðið hefur yfir stjórnmál í Evrópu undanfarin ár, en einhvernveginn var það samt sem áður uggandi að fá að kynnast þeim veruleika nánar; hvernig það er að lifa í landi þar sem að þjóðernishyggja og rasismi er í uppgangi, og sósíalismi, mannréttindi og kvenréttindi eru á afturhaldi.

Eitt af því sem að var hvað áhugaverðast var að bera saman ástandið í Póllandi og á Íslandi og að sjá svart á hvítu hvað við erum komin mikið lengra hvað varðar hluti eins og kvenréttindi, réttindi mæðra, réttindi LGBT+ fólks og réttindi verkafólks. Þetta er eitthvað sem hefur ekki unnist sjálfkrafa, heldur fyrir tilstilli baráttu sem hefur skilað sér hér á landi. Þessi samanburður var góð áminning um hversu mikilvæg áframhaldandi barátta er; hún gerir það kleift að standa vörð um þau réttindi sem að hafa unnist og að ná enn lengra í jöfnuði og mannréttindum.

Voðaverkin í Orlando áttu sér stað daginn eftir að við gengum ásamt þúsundum annarra í Pride-göngunni í Varsjá. Á mánudag fórum við að bandaríska sendiráðinu í Varsjá til þess að minnast fórnarlamba árásanna. Árásin var enn önnur áminning um þá fordóma og hatur sem ríkir gagnvart LGBT+ fólki um heim allan, og hversu mikilvæg baráttan gegn þessu hatri er.

Við í UVG munum halda áfram að berjast fyrir og standa vörð um mannréttindi og berjast gegn fordómum, hatri, rasisma og þjóðernisstefnu, hvort sem það er á erlendum vettvangi eða hér á Íslandi.

– Gyða Dröfn Hjaltadóttir, Alþjóðaritari UVG

 

13570328_10206701510593294_1521020441_o 13553368_10206701560394539_1534748668_n13556034_10206701558434490_1444141519_o 13570020_10206701560474541_2101112173_o 13576364_10206701558154483_1881463646_n 13549173_10206701510233285_1450126491_o 13549090_10206701558114482_1749226459_o 13499882_10206701510633295_140368229_o

Save