Aukalandsfundarályktanir UVG 2015

By 11. April, 2015 Ályktanir

i. Farðu heim, Gunnar Bragi

Aukalandsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn að Borgartúni í Reykjavík þann 11. apríl 2015, fordæmir vinnubrögð utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar.

Þó að hreyfingin styðji ekki aðild Íslands að Evrópusambandinu er ljóst að nýleg bréfsending ráðherra til yfirvalda sambandsins er gerræðisleg, óþingræðisleg og ólýðræðisleg. Líklega hefði öllum mátt ljóst vera að þessi óforskammaða ríkisstjórn myndi aldrei efna loforð sín um þjóðaratkvæðagreiðslu en að ganga með svo freklegum hætti framhjá gildandi þingsályktun er með öllu ólíðandi.

Nýleg ákvörðun utanríkisráðherra um þátttöku Íslands í hernaðarbandalagi Norðurlanda bendir til þess að hann hyggist gera það verklag að reglu, að taka einhliða meiri háttar ákvarðanir um utanríkisstefnu og alþjóðasamstarf ríkisins. Ung vinstri græn vona að ekki sé til of mikils ætlast að ráðherra hátti starfi sínu með hliðsjón af því að hann sé ráðamaður í lýðræðisríki.

Ung vinstri græn hafna alfarið hinu nýja hernaðarbandalagi og þátttöku Íslands í því. „Borgarlega“ þátttöku í slíku bandalagi er ekki hægt að aðskilja frá hernaðarlegri. Ísland er herlaust land og á að taka fortakslausa afstöðu með friði á alþjóðavísu en ekki hlaupa undir bagga með undirmálsstríðum heimsvaldasinna. Ung vinstri græn hafna hernaði í öllum sínum myndum.

Ung vinstri græn hvetja utanríkisráðherra jafnframt til að ganga hægt um gleðinnar dyr á flokksþingi Framsóknarflokksins um helgina svo ekki sé að vænta fleiri einhliða breytinga á utanríkisstefnu landsins af hálfu ráðherrans.

 

ii. Engin sátt um arðrán

Aukalandsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn að Borgartúni í Reykjavík þann 11. apríl 2015, lýsir yfir skilyrðislausum stuðningi við réttmætar kröfur verkalýðshreyfingarinnar í yfirstandandi kjaradeilum á vinnumarkaði. Þær yfirlýsingar Samtaka atvinnulífsins, að það ógni stöðugleika að hækka lágmarkslaun í 300.000,- krónur á mánuði — á sama tíma og yfirstéttin hefur notið umtalsverðs launaskriðs á árunum frá Hruni — sýna grímulaust í þágu hverra samtökin starfa. Launahæstu tíu prósentin á vinnumarkaði hafa í mánaðarlaun á bilinu þrefalda til tífalda þá upphæð sem nú er krafist í lágmarkslaun. Alþýðufólk er ekki ógnin við stöðugleika — heldur sívaxandi misskipting auðs. Leiðin að réttlátu samfélagi grundvallast ekki á þeirri nauðsynlegu afleiðingu auðmagnshyggjunnar að hin ríku verði ríkari og hin fátæku fátækari heldur á jafnri skiptingu lífsgæða. Ung vinstri græn árétta þá skoðun hreyfingarinnar að verkföll séu mikilvægasta baráttutæki verkafólks í borgaralegu samfélagi. Því lýsa Ung vinstri græn jafnframt yfir fullum stuðningi við yfirvofandi verkfallsaðgerðir. Það er ekki, og verður aldrei, nein sátt um arðrán.

 

iii. Látið Rammaáætlun í friði!

Aukalandsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn að Borgartúni í Reykjavík þann 11. apríl 2015, lýsir yfir fullkomnu vantrausti á ríkisstjórnina til að sinna umhverfis- og náttúruvernd. Þrátt fyrir samþykktir þingsins um friðlýsingar hefur ekkert gengið að friðlýsa svæði frá 2013 vegna niðurskurðarstefnu hægriflokkanna. Ríkisstjórnin er svo blinduð af fyrirmælum auðmagnshyggjunnar um að draga úr umsvifum hins opinbera að hún ræður ekki einu sinni við að framfylgja nýlegum samþykktum löggjafans um Rammaáætlun. Þvert á móti er ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér að ganga af Rammaáætlun dauðri. Nú hefur meirihlutinn í  atvinnuveganefnd — en ekki umhverfis- og samgöngunefnd sem hafði málið upphaflega á sinni könnu — lagt til að heilir fimm virkjunarkostir verði færðir úr biðflokki í nýtingarflokk án þess að þar liggi fyrir nokkur fagleg rök. Áfram ætlar íhaldið að fórna náttúrunni á altari hugmyndaleysis síns í atvinnumálum og að þessu sinni gengur það einstaklega langt í fullkomnu skeytingarleysi sínu gagnvart umhverfinu. Af þessum áformum má ekki verða og brýna Ung vinstri græn þingflokk Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs til að beita öllum tiltækum ráðum til að hindra að þessar áætlanir nái fram að ganga.

 

iv. #FreeTheNipple

Aukalandsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn að Borgartúni í Reykjavík þann 11. apríl 2015, fagnar þeirri femínísku vakningu sem er að verða meðal ungs fólks á landsvísu. Á undanförnum misserum hafa fjölmörg femínistafélög verið stofnuð í skólum um landið allt og kvenfrelsi virðist ekki eiga jafnmikið á brattann að sækja meðal yngri kynslóða og áður var talið. Vona Ung vinstri græn að þessi bylgja skili sér til eldri kynslóða og að hún leiði af sér aukið jafnrétti í samfélaginu. Fundurinn áréttar jafnframt nýlega ályktun opins fundar UVG og VG um að hafna því að líkamar fólks geti verið notaðir gegn því til kúgunar, yfirráðum klámvæðingarinnar yfir líkömum kvenna, að fordæma stafrænt kynferðisofbeldi og að fagna nýhafinni brjóstabyltingu. Niður með feðraveldið — lifi byltingin!

Greinargerð:

Fjölmennur fundur á vegum VG, VGR og UVG á KEX Hostel þann 30. mars 2015 ályktar svo:

Fundurinn hafnar því að líkamar fólks geti verið notaðir gegn því til kúgunar, hafnar yfirráðum klámvæðingar yfir líkömum kvenna, fordæmir þá sem beita stafrænu kynferðisofbeldi og fagnar nýhafinni brjóstabyltingu.

Feðraveldið leitar sífellt nýrra leiða til að viðhalda sér og úr sér gengnum reglum sínum. Samfélagið er gegnsýrt af tvöföldu siðgæði, þar sem stelpur eru hlutgerðar frá barnsaldri og alið á skömm gagnvart líkömum þeirra á sama tíma.

Konur risu upp gegn feðraveldinu miðvikudaginn 25. mars. Konur tóku skilgreiningu á líkömum sínum í eigin hendur, neituðu að skammst sín fyrir líkama sína og slógu þannig vopnin úr höndum ofbeldismanna.

Fundurinn samþykkir það að halda ótrauð áfram að berjast fyrir jafnri stöðu kynjanna, því enn er of langt í að við verðum öll jöfn. Samstaða er mikilvæg og valdeflandi. Feðraveldið má fokka sér okkar vegna. Lifi byltingin!

 

v. Engin sátt um landrán

Að tilefni heimsóknar og fyrirlestra Dr. Mads Gilbert hér á landi ítrekar aukalandsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn að Borgartúni í Reykjavík þann 11. apríl 2015, þá afstöðu hreyfingarinnar að Palestína skuli vera frjáls. Sá hernaður sem Ísraelsríki stundar á landsvæði Palestínumanna er ekki eingöngu með öllu óforsvaranlegur heldur brýtur einnig á fleiri en einum alþjóðasáttmála um bæði hernað og mannréttindi.

Ung vinstri græn hvetja íslensk stjórnvöld til að sýna gott fordæmi fyrir alþjóðasamfélagið. Annars vegar með því að sniðganga vörur frá Ísrael og hins vegar með því að fordæma að þjóðir komist upp með svo alvarleg brot en njóti enn virðingar og viðurkenningar í alþjóðasamfélagi.