Vilhelm Mikael Vestmann skrifar:

Þegar ég byrjaði í UVG, haustið 2016; á ári Panamaskjalanna og almennrar pólitískrar ólgu, var ég aðeins í 8. bekk grunnskóla. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar er kemur að íslenskum stjórnmálum, á stuttum tíma.

Það verður að viðurkennast að það er dálítið skrýtið að vera virkur í pólitík á grunnskólaaldri, eða, óvenjulegt, skulum við segja. Enn undarlegra er að kynna sig fyrir einhverjum, eiga heimspekilegar samræður um skattamál og umhverfismál við viðkomandi, og svara næst spurningunni: „Hvenær ertu fæddur?“. Svar mitt kemur alltaf jafn mikið á óvart. Ah, sem betur fer ég bráðum í framhaldsskóla. Reyndar nú í haust.

Mér er minnisstætt hversu vel fólkið í hreyfingunni, bæði VG og UVG, tók á móti mér, þrátt fyrir minn mjög svo óvenjulega, unga aldur. Almennt hef ég mætt mjög litlum fordómum á vettvangi stjórnmálanna vegna aldurs míns, þ.e.a.s. að fólk taki minna mark á skoðunum mínum eða hughrifum. Þó er ég kominn lengra í pólitískri hugsun en gengur og gerist hjá mínum jafnöldrum. Ég tel að það væri vonlaust að eiga samtal við þá um veru Íslands í NATO, Istanbúlssamninginn eða sósíalisma. Það má samt ávallt reyna, kannski er einhver á sama plani og ég. Reyndar hef ég rætt við þá um öll þessi atriði, nei, reynt það. Það gekk ekki.

Ég er reglulega spurður að því hvers vegna VG hafi orðið fyrir valinu. Fólk vill heyra ástæðu mína vegna þess sjónarhorns sem ég hef. Svör mín eru alltaf einhvern veginn á þessa vegu: „Ja, sko, ég er bara langmest sammála VG.“ Með þessu er ég þó ekki að segja VG sé fullkomið. Fólk heldur oft að ég hafi öðruvísi skoðanir en þau eldri, en í raun hef ég ekkert annað sjónarhorn. Mögulega má rekja það til þess hve lítið Ísland er, og eða hvernig allt fréttist til allra, eða bara tengsla minna út á við. Vitaskuld tala ég þó ekki fyrir hönd allra grunnskólanema; þetta er mín upplifun á pólitík.