0

Ályktun vegna ,,Klaustursupptakna”

By 29. November, 2018 Ályktanir
Framkvæmdastjórn UVG skrifar:

Ung vinstri græn fordæma þann málflutning sem þingmenn Miðflokksins viðhöfðu í svokölluðum ,,Klaustursupptökum.” Þar tala þeir á einstaklega viðurstyggilegan og niðrandi hátt um samstarfskonur sínar á þinginu, tala af stakri vanvirðingu um þá mikilvægu byltingu sem #metoo var og er og einnig koma þar fram fordómar í garð samkynhneigðra einstaklinga og einstaklinga með fatlanir.

Einnig fordæmum við að tveir þingmenn Flokks fólksins hafi setið hjá og hlýtt á svo grafalvarlegan orðflutning án nokkurra athugasemda.

Við teljum þær einföldu og fremur stuttaralegu afsökunarbeiðnir sem fram eru komnar ekki duga. Skoðanir líkt og þær sem látnar voru í ljós þetta nóvemberkvöld eru með öllu ófyrirgefanlegar. Þingmennina teljum við hafa glatað öllu trausti og að gjörðir þeirra hafi skaðað trúverðugleika og traust til Alþingis. Því krefjumst við þess að þeir segi af sér tafarlaust.

Kvenfyrirlitning, hómófóbía og fötlunarfordómar eiga ekki heima á Alþingi.