Ályktun vegna heræfinga bandaríska flughersins

By 8. April, 2015 Ályktanir

Ályktun vegna heræfinga bandaríska flughersins

Ung vinstri græn mótmæla harðlega heræfingum bandaríska flughersins hérlendis, sem Landhelgisgæsla Íslands tilkynnti í gær að stæðu til þegar loftrýmisgæsla NATÓ við Ísland hefst aftur þann 13. apríl næstkomandi.

Það er landi sem kennir sig við frið á tyllidögum til háðungar að heimila heræfingar erlendra vígamanna innan sinnar lögsögu. Ung vinstri græn árétta þá afstöðu hreyfingarinnar að Ísland eigi að taka fortakslausa afstöðu með friði. Aðild Íslands að NATÓ getur aldrei samræmst raunverulegri friðarstefnu heldur skuldbindur hún ríkið til þess að leyfa morðæfingar á sínu yfirráðasvæði, greiða skattfé úr ríkissjóði fyrir hernaðaraðgerðir í fjarlægum heimshlutum og taka afstöðu með heimsvaldastefnu Vesturvelda.

Ung vinstri græn skora enn og aftur á Alþingi að taka afstöðu gegn hernaði, beita sér gegn heræfingum bandaríska flughersins í boði Landhelgisgæslunnar og segja landið úr NATÓ.