0

Ályktun vegna aukinna hernaðarumsvifa á Keflavíkurflugvelli

By 24. June, 2019 Ályktanir
Framkvæmdastjórn UVG skrifar:

Framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna fordæmir fyrirhugaðar framkvæmdir og aukin umsvif Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.

Með framkvæmdunum er stefnt að því að bæta aðstöðu til meðhöndlunar hættulegs farms, svo sem vopna, og að hér verði hægt að taka við tveimur orrustuflugsveitum í einu hvenær sólarhrings sem er. Það væru 36 til 48 orrustuflugvélar þegar mest lyti. Móttaka vopna og orrustusveita er ekki eitthvað sem Ung vinstri græn kæra sig um að sjá á Íslandi. Auk þess færi það þvert gegn yfirlýstum vilja stjórnvalda til þess að stuðla að friði á alþjóðavettvangi og að Ísland sé hlutlaust í alþjóðadeilum.

Þá fordæma Ung vinstri græn einnig aukna fjárveitingu til Atlantshafsbandalagsins, NATO, sem samþykkt var á dögunum á Alþingi. Sú þróun að íslenska ríkið þurfi að leggja til aukna fjármuni á þessum vettvangi þykir skref í ranga átt. Skref í átt að því að hér verði á ný rekin herstöð en ekki skref í átt að útgöngu úr NATO.

Ísland úr NATO og herinn burt!