0

Ályktun um stöðu intersex fólks á Íslandi

By 24. September, 2019 Uncategorized

Ályktunin tengist sextánda heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna.

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Mosfellsdal 14.-15. september 2019, tekur afstöðu með intersex fólki og þeirra baráttu. Barátta intersex fólks leggur meðal annars áherslu á að komið sé í veg fyrir óþarfa inngrip á kyneinkennum intersex barna án þeirra samþykkis. Þó að samfélagsleg viðhorf á Íslandi séu almennt jákvæð í garð hinsegin fólks þá er en mann ógert þegar kemur að lagarammanum. Bæta þarf orðinu kyneinkenni við í öllum þeim lögum sem snúa að mismunun. Við höfum dregist langt aftur úr ef miðað er við þau lönd sem við berum okkur saman við. Hvar er aðgerðaráætlunin sem var búið að lofa um málefni hinsegin fólks?

 

Greinagerð með ályktun:

Vilt þú vera send/sent/sendur í lýtaaðgerð á æxlunarfærum þínum án þíns samþykkis? Vilt þú að kynhormónakirtlarnir þínir séu fjarlægðir án bitastæðrar ástæðu? Vilt þú þurfa að vera á hormónum allt þitt líf vegna óþarfra inngripa lækna? Eflaust er svarð nei, líkt og hjá intersex fólki.

Þau sem eru intersex eru öll þau sem eru ekki markkynja. Þau eru með líkama sem fellur utan þeirra kassa sem kynjakerfið flokkar sem ,,kvenkyns” og ,,karlkyns”. Það eru til fjölmargar gerðir af því að vera intersex og það er álíka algegnt og það að vera með rautt hár. Intersex líkamar eru heilbrigðir líkamar sem ekkert er að. Samt sem áður eru intersex börn send í aðgerðir til þess að laga líkama þeirra að því útliti sem kynjakerfið samþykkir. Læknar ákveða þá fyrir barnið hvernig kynfæri þau eiga að vera með án þess að tillit sé tekið til kynvitundar þeirra.

Uppgefnar ástæður fyrir framkvæmd aðgerðanna eru margskonar. Sumir segja að það sé til þess að intersex börn lendi ekki uppá kant í samfélaginu þegar þau verða eldri. Afhverju þurfa intersex börn að láta breyta eigin líkama til þess að vera ekki útskúfuð? Intersex fólk ber ekki ábyrgð á því ef samfélagið bregst því. Að senda intersex börn í þessar óþörfu fegrunaraðgerðir er útskúfun og mismunun í sjálfu sér. Frá fyrsta degi eru líkamar þeirra smánaðir og farið með þá eins og þá þurfi að laga á einhvern hátt. Það á ekki að breyta intersex líkömum svo þeir passi í samfélagið heldur á að breyta samfélaginu þannig að rými sé fyrir intersex líkama og intersex fólk. Samfélagið er fjölbreytt og á að vera fjölbreytt og það er okkar að gera samfélagið opið fyrir margbreytileika. Í fjölbreyttu samfélagi viðgangast ekki óþarfar aðgerðir á intersex fólki. Ung vinstri græn gera kröfur á ríkisstjórnina að fylgja eftir loforðum sínum og bæta stöðu intersex fólks.