0

Ályktun um líffræðilega fjölbreytni

By 24. September, 2019 Uncategorized

Ályktunin tengist fjórtánda og fimmtánda heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna.

Aðkoma ungs fólks að nýjum rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Landsfundur Ungra vinstri grænna haldinn í Mosfellsdal helgina 14.-15. september 2019 fer fram á að stjórnvöld á Íslandi, og aðrir sem að málinu koma, sjái til þess að ungu fólki sé veittur aðgangur að yfirstandandi samningaferli fyrir nýja rammaáætlun Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og að fulltrúar ungs fólks komi að mikilvægum ákvörðunum í ferlinu. Er þetta mjög mikilvægt til að tryggja að rammasamningurinn taki virkilega mið af komandi kynslóðum og að framtíð og þarfir ungs fólks séu raunverulega hafðar til hliðsjónar. Landsfundur UVG fer einnig fram á að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að tekið verði á verndun vistkerfanna (líffræðilegum fjölbreytileika) af sama kappi og metnaði og loftslagsvánni og ráðstafi auknum fjármunum í þessar aðgerðir.

 

Greinagerð með ályktun:

„Líffræðileg fjölbreytni nær til allrar lifandi náttúru, eininganna sem hún er byggð úr og birtingarformanna sem hún tekur. Líffræðileg fjölbreytni spannar náttúrulegan og manngerðan breytileika á öllum skipulagsstigum lífsins, frá erfðavísum og tegundum, til vist- og lífkerfa.” (Stefnumörkun Íslands um Samninginn um líffræðilega fjölbreytni, 2008). Hugtökin „lífríki” og „líffræðilegur fjölbreytileiki” er einnig notaðí sömu merkingu.

Sáttmálinn um líffræðilega fjölbreytni  og varðveislu vistkerfa í heiminum var undirritaður af 196 ríkjum (Íslandi þar á meðal) árið 1992 og er í raun systur-samningur samnings sem gerður var á sama tíma um loftslagsbreytingar og spornun gegn hlýnun jarðar. Árið 2010 settu aðildarríkin að samningnum sér sérstök markmið, svokölluð Aichi markmiðin, og áætlun um hvernig þessum markmiðum skyldi náð fyrir árið 2020. Um 20 markmið er að ræða sem flest innihalda þó nokkur undirmarkmið. Síðastliðið vor kom út skýrsla á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem varpaði ljósi á stöðu markmiðanna. Búið var að ná fæstum markmiðunum í átt að líffræðilegri fjölbreytni  og varðveislu vistkerfa í heiminum og voru niðurstöðurnar í raun sláandi. Markmiðin höfðu fallið í skuggann af markmiðum sem snúa að loftslagsbreytingum þegar þetta tvennt hefði í raun átt að haldast í hendur þar sem annað hefur áhrif á hitt og svo öfugt.

Í október 2020 munu fulltrúar aðildarríkjanna 196 að sáttmálanum um líffræðilega fjölbreytni koma saman í Kína til að skrifa undir ný markmið og nýjan tímaramma. Nú á dögunum hófust formlegar samningaviðræður á vegum SÞ þar sem fulltrúar aðildarríkjanna komu saman í Nairobí, Kenía, til að ræða markmið, aðferðir, aðkomu ríkjanna og tímaramma. Ný rammaáætlun þarf að hljóta einróma samþykki allra aðildarríkjanna og er ljóst að hún mun hafa mikil áhrif á ríki heims og íbúa þeirra.