0

Ályktun um frumvarp til laga um þungunarrof

By 2. November, 2018 Ályktanir
Framkvæmdastjórn UVG skrifar:

Ung vinstri græn fagna því að nú eigi sér stað í þjóðfélaginu umræða um þungunarrof. Frumvarp heilbrigðisráðherra sem leggur til að þungunarrof verði leyft út 22. viku meðgöngu er miðpunktur þessarar umræðu og við fögnum því að lög um þungunarrof eru nú endurskoðuð í fyrsta skipti í 43 ár.

Frumvarp þetta er ekki úr lausu lofti gripið eða byggt á geðþóttaákvörðun eða mannvonsku, heldur byggt á rannsóknarvinnu starfshóps sem skipaður var sérfræðingum í málaflokknum. Starfshópurinn leitaði álits margra aðila í vinnu sinni og bar saman samskonar lög í nágrannalöndunum. Við treystum því að sú vinna hafi verið unnin af heilindum og fagmennsku.

Við tökum undir þegar talað er um að markmið laga um þungunarrof eigi að vera að tryggja sjálfsforræði einstaklinga yfir eigin líkama. Ákvörðun um þungunarrof, sem er aldrei auðveld eða léttvæg, skal liggja hjá einstaklingnum sem ber fóstrið og treystum við því að hver taki þá ákvörðun sem er rétt fyrir sig persónulega. Við styðjum því frumvarp heilbrigðisráðherra og lítum á það sem svo að það færi vald allra yfir eigin líkama þangað sem það á heima, til þeirra sjálfra.