Aldrei aftur her

By 10. February, 2016 Ályktanir, Fréttir, Uncategorized

Nýverið bárust fréttir af því að bandaríski herinn hyggur á endurkomu til Íslands og ætlar sér að gera upp flugskýli til þess að geta staðið í eftirlitsflugum í norður Atlantshafi. Einnig kemur fram á vefsíðu bandaríska hersins að varanlegt aðsetur í Keflavík komi til greina.

Aukin hernaðarumsvif mynda spennu í alþjóðasamskiptum og að grípa frekar til aukinnar hernaðarumsvifa í stað þess að bæta pólitísk samtöl og komast að pólitískum lausnum, til að mynda í samskiptum við Rússland, er glæfraleg stefna. Samkvæmt utanríkisráðherra er tilgangur hersins einungis að gera upp flugskýli í Keflavík og fá að geyma eftirlitsflugvél þar en sú leynd sem liggur yfir komu hersins er vægast sagt óþægileg, utanríkisráðherra og yfirmenn bandaríska hersins virðast ekki líta á komu hersins með sömu augum. Það er mikilvægt að stjórnvöld feli ekki stefnu sína í utanríkismálum fyrir íslensku þjóðinni og þá sérstaklega ekki ef stjórnvöld ætli að auka aðkomu sína að hernaðarbrölti.

Það virðist sem svo að núverandi stórnvöld vilji frekar auka aðkomu Íslands að hernaðarbrölti en að minnka þau, þar má sem dæmi nefna hjásetu Íslands í ályktun sem lá fyrir Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um bann á kjarnorkuvopnum, þó að rúm 80% þjóða hafi greitt atkvæði með þeirri ályktun. Með því að heimila viðveru bandarískahersins og með því að vera meðlimur í NATO (Atlantshafsbandalaginu) þá getur Ísland ekki talið sig vera herlausa þjóð né friðarþjóð, stjórnvöld geta ekki falið sig undir pilsfaldi bandarískra hersins og á sama tíma stimplað sig sem hið saklausa Ísland sem gerir ekki flugu mein. Leyfi stjórnvalda sýnir afstöðu þeirra til hernaðar, afstöðu sem sýnir að við styðjum hernaðarbrölt Bandaríkjanna, sú afstaða er grafalvarleg og óafsakanleg.

Ung vinstri græn grundvalla utanríkisstefnu sína á hugsjónum friðarstefnu og félagslegrar alþjóðahyggju. UVG ítreka afstöðu sína að Ísland eigi að vera herlaust land og verði hvorki viðvera erlendra herja hérlendis. Ísland sem þjóð á að vera leiðandi í að móta friðar stefnu á alþjóðavettvangi, Ísland getur ekki hampað sér sem friðarþjóð og predikað friðarstefnu ef stjórnvöld leyfa herjum annara landa að hafa hér aðsetur. Höfnum hernaði alltaf – ávallt!

-Ragnar Auðun Árnason, alþjóðaritari UVG