Landsfundur Ungra vinstri grænna fór fram í Grundarfirði um helgina og lauk nú í morgun, sunnudaginn 3. september. Á fundinum urðu talsverðar breytingar á stjórn og skipulagi UVG, ýmsir sem hafa verið virkir í starfinu undanfarin ár sóttust ekki eftir endurkjöri og margir nýir setjast því í stjórnir hreyfingarinnar. Sem kunnugt er starfa tvær stjórnir í UVG, framkvæmdastjórn sem sér um daglegan rekstur hreyfingarinnar og landstjórn sem er æðsta vald milli landsfunda. Síðan árið 2012 hafa Ung vinstri græn notast við flatt skipulag, en á fundinum var rædd tillaga nokkurra fráfarandi framkvæmdastjórnarfulltrúa um að taka upp embætti formanns og varaformanns, í stað talsfólks. Talsverðar umræður voru um tillöguna á fundinum, en að þeim loknum var breytingin samþykkt samhljóða á laugardagsmorgninum. Var samhljómur um það á fundinum að gott væri að taka upp embætti formanns á ný til að gera starfið skilvirkara, en áfram verði unnið í þeim anda að enginn fulltrúi sé æðri öðrum. Til að kynna breytinguna fyrir félagsmönnum og auglýsa eftir framboðum í hin nýju embætti var stjórnarkjöri frestað til morguns.

Í morgun var gengið til stjórnarkjörs og var Gyða Dröfn Hjaltadóttir kjörin formaður UVG með öllum greiddum atkvæðum. Gyða er sálfræðingur á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum, en hún útskrifaðist með meistarapróf í klínískri sálfræði í júní. Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir var kjörin varaformaður, en hún er nemi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

 

Í heild sinni eru stjórnir UVG svo skipaðar:

 

Framkvæmdastjórn:

Formaður: Gyða Dröfn Hjaltadóttir

Varaformaður: Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir

Aðalritari: Dagrún Ósk Jónsdóttir

Viðburðastýra: Margrét Erla Þórsdóttir

Ritstýra: Þórdís Dröfn Andrésdóttir

Innrastarfsfulltrúi: Andrea Ósk Sigurbjörnsdóttir

Alþjóðaritari: Rakel G. Brandt

 

Landstjórn:

Eyrún Baldursdóttir

Isabella Rivera

Jón Axel Sellgren

Rúnar Gíslason

Salvar Andri Jóhannsson

Silja Snædal Drífudóttir

Védís Huldudóttir

 

Á fundinum fór fram mikil málefnavinna og fjöldi ályktana samþykktar. Þar á nefna ályktanir um efnahagsmál og skatta, heilbrigðiskerfið, gjaldfrelsi í skólakerfinu, háskólakerfið, LÍN, húsnæðiskerfið, flóttamannamál, lækkun kosningaaldurs, uppreist æru og margt fleira. Ályktanirnar má finna í heild sinni hér.

 

Ung vinstri græn vilja færa félögum í Grundarfirði sérstakar þakkir, en VG félagið í bænum lánaði húsnæði sitt undir fundinn og stóð fyrir dagskrá á landsfundargleðinni á laugardagskvöldinu. Ragnar og Matthildur – Sigurborg og Ingi Hans – þið eruð höfðingjar heim að sækja!