0

Viðburður: Opinn fundur um stöðu flóttafólks og hælisleitenda

By 15. January, 2019 Fréttir
Ung vinstri græn boða til viðburðar sunnudagskvöldið 20. janúar þar sem rætt verður um stöðu flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi.

Frummælendur okkar þetta kvöld eru ekki af verri endanum:

Gerður Gestsdóttir, mannfræðingur og þýðandi, flytur erindið ,,Flóttafólk á vinnumarkaði.” Gerður hefur unnið að málefnum innflytjenda síðan um aldamót og hefur tekið þátt í stefnumótun og fræðsluefnisgerð á því sviði bæði hjá ríki og Reykjavíkurborg. Hún vann rannsókn á afdrifum kólumbískra flóttakvenna á vinnumarkaði áratug eftir komu þeirra til Íslands og mun segja frá þeirri rannsókn. Nýverið fékk hún styrk frá VIRK-starfsenduhæfingu til að rannsaka aðgengi og árangur starfsendurhæfingar fyrir þá sem tala takmarkaða íslensku.

Kinan Kadoni og Þórunn Ólafsdóttir hafa bæði unnið lengi að málefnum flóttafólks og hælisleitenda, bæði hér á landi sem og víða um heim. Þórunn hlaut Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2016 og hefur síðastliðið ár unnið sem verkefnastjóri í málefnum hælisleitenda í Hafnarfirði. Kinan er frá Sýrlandi og flúði til Belgíu fyrir átta árum síðan en hefur verið hér á Íslandi um tíma. Síðastliðið sumar hlaut hann svo íslenskan ríkisborgararétt.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður situr í allsherjar-og menntamálanefnd Alþingis, en sú nefnd fer með mannréttindamál hins opinbera.

Sérstakur gestur fundarins verður Ali Reza Matin. Ali er frá Afganistan og kom til Íslands sem hælisleitandi árið 2016 og fékk landvistarleyfi árið 2017. Hann vinnur nú sem svefnmælifræðingur á Landspítalanum. Hann ætlar að segja okkur frá reynslu sinni.